Molar um málfar og miðla CXXXIX

 Áhugamaður um tunguna benti Molahöfundi á eftirfarandi klausu  í Vefmogga:„Báturinn hefur hlotið nafnið Le Dré en skírnarathöfn undir stjórn Peters Bürchers biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, fór fram í Hafnarfjarðarhöfn fyrir sjósetningu bátsins." Síðan spyr sá sem rak augun í þetta: „Er unnt að skíra bát? Er skírn ekki það, þegar maður er tekinn í samfélag kirkju? Getur bátur gerst slíkur félagi? Er honum ekki gefið nafn?"  Auðvitað er þetta hárétt. Bátar  og skip eru ekki skírð. Þeim  eru gefin nöfn.    Svo má  bæta  við að sagt er að  þessi athöfn hafi  farið  fram „í Hafnarfjarðarhöfn fyrir sjósetningu bátsins". Ef báturinn hefur verið í Hafnarfjarðarhöfn  hefur verið  búið að sjósetja hann.

 Þetta minnir  á notkun  sagnarinnar að  vígja, sem  nú er orðið algengt að nota þegar ný mannvirki  eru  tekin í notkun. Þegar Molaskrifari skrifaði fréttir  fyrir meira en   þrjátíu árum var lögð rík áhersla á að ekki  væri  sagt að mannvirki  væri  vígt, nema  prestvígður maður  blessaði   það og þá sem það  notuðu. Nú má  nota  orð  Torfa Erlendssonar sem á að hafa  sagt „allan andskotann vígja þeir", þegar Hallgrímur Pétursson var vígður  til embættis sem prestur á Hvalsnesi.

Í sjö fréttum RÚV í morgun (01.09.2009)  sagði fréttamaður „að lán hefði verið neytt upp á Íslendinga". Þetta er  rangt. Hann hefði átt að  segja að láni hefði verið neytt upp á Íslendinga. Það er  talað um að neyða einhverju (þgf.)upp á einhvern. Ambagan var endurtekin í áttafréttum. Heyrnartækin eru ekki í lagi í Efstaleitinu.

Margt er skrítið í  dagskrárgerð  RÚV. Mér er til  dæmis  algjörlega óskiljanlegt hversvegna Kastljós er  endursýnt klukkan að ganga  tvö að nóttu. Langflestir  þeirra sem missa  af Kastljósi á venjulegum útsendingartíma geta  horft á þáttinn á netinu.  Eldri borgarar sem  ekki eru  með  tölvu vaka  varla  eftir   endursýningu fram á miðja nótt. Ef  nauðsynlegt er að  endursýna Kastljós ætti að gera það  á skikkanlegum tíma  daginn eftir frumsýninguna.Raunar eru  þessir þættir oft þannig að ekki er nokkur ástæða til að endursýna þá.  Varla getur  verið að endursýningin  sé  einhverskonar launauppbót  starfsmanna.  Því vil ég alls ekki trúa.

 Sagt  er frá  verðhækkunum á ýmsum matvörum í fjölmiðlum  í dag. Bónus , þar sem  Molaskrifari  verslar jafnan  tók forskot á  sæluna. Lítil  ferna  af  jógúrt  frá  Húsavík hafði í gær (31.08.2009)hækkað úr  167 kr. í  172 kr. Kostaði  reyndar  fyrir  10  dögum eða  svo  163 kr.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við vorum einmitt að ræða það í gærkvöldi við hjónin, hvers vegna í ósköpunum dagskrá Sjónvarpsins stæði stundum til að ganga þrjú á næturna á virkum dögum, hvað þá nú þegar allir eru að skera niður kostnað.

Bolli Valgarðsson (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 09:57

2 identicon

Ein vinsamleg ábending; Internetið og þ.a.l. Netið er skrifað með stórum staf.

Gústaf Hannibal (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 13:26

3 Smámynd: Eygló

Þegar ég var styttri í annan endann og einhverjum áskotnaðist e-t fat eða skór, var alltaf talað um að maður hefði verið að vígja nýju peysuna, eða ætlarðu ekki að vígja nýju stígvélin þín?

En pabbi og mamma voru auðvitað guðlausir prakkarar :)  og hefðu sennilega ekki látið þetta sjást á prenti :)

Eygló, 1.9.2009 kl. 21:24

4 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Sæl Eygló, - jú,jú auðvitað þekkir maður þetta úr  talmáli  notað  á þann hátt sem þú lýsir. En ég kann ekki við þegar fréttamenn segja að  brú hafi verið vígð, -  nema  vígður maður  hafi beðið mannvirkinu og vegfarendum  blessunar. Hafi  svo ekki verið  var  brúnin  opnuð  fyrir umferð   eða  tekin í notkun.

Eiður Svanberg Guðnason, 1.9.2009 kl. 21:41

5 Smámynd: Eygló

Auðvitað "leyfist" ýmislegt í munni þótt það eigi alls ekki við á prenti.

Svo "skírir" fólk gæludýrin sín, dúkkur eru "skírðar", bílar eru skírðir í hausinn á eða eftir einhverjum.

Mikil hlýtur blessunin að vera :)

Ég held að fólk hafi almennt tekið út "helgihlutann" þannig að nefna verður það sama og skíra. Þ.a.l. skírir það hvað sem er.  Skýrir þetta mál mitt?   

Eygló, 2.9.2009 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband