12.8.2009 | 21:20
Molar um málfar og miðla CXXV
Molaskrifari heyrði ekki fréttir RÚV (12.08.2009) klukkan 08 00, en málglöggur áhugamaður um íslenska tungu benti skrifara á að hlusta á þennan fréttatíma á netinu. Í fréttatímanum var viðtal við forstöðumann greiningardeildar Íslandsbanka, sem sagði að ríkissjóður væri að afla sér fé á innlendum fjármálamarkaði. Þessi ambaga er orðin ótrúlega algeng. Menn kunna ekki að beygja orðið fé. Bankamaðurinn hefði auðvitað átt að segja að ríkissjóður væri að afla sér fjár. Svo geta menn til gamans velt því fyrir sér hvort rétt sé að treysta banka fyrir fé þar sem menn kunna ekki þessa grunnskólamálfræði.
En tönnlast fréttamenn á þeirri ensku eftiröpun að tala um síðasta föstudag, ekki föstudaginn var. Í fréttatíma RÚV kl 19 00 (12.08.2009) talaði fréttaþulur um síðasta haust (e. last fall) . Auðvitað átti fréttaþulur að segja í fyrrahaust. Í sama fréttatíma var sagt, þegar uppi verður staðið. Átt var við, þegar upp verður staðið (sem mér finnst nú reyndar ekki mjög fallegt mál) , þegar öllu er á botninn hvolft, þegar öll kurl eru komin til grafar. Ekki fleiri orð um það að sinni.
Lesendum þakka ég athyglisverðar ábendingar og jákvæðar undirtektir við það sem sagt hefur verið í þessum Molum.
Athugasemdir
Það er kannski eðlilegt að sleppa því að beygja orðið fé ef það er illa fengið. Hæfir þá skel kjafti. Einu sinni hafði ég kennara sem notaði talaði alltaf um einkanir ef þær voru undir 5 en einkunnir ef þær foru hærri en 5.
Þorsteinn Sverrisson, 12.8.2009 kl. 21:35
Það er margt á sömu bókina lært hjá þessum vesælu bankamönnum. Þeim virðist ekki viðbjargandi.
Bankaþjófarnir (ógæfumennirnir) skulu kallast sparifjárþjófar, en ekki spariféþjófar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 22:04
Eftir atkvæðagreiðslu (ekki kosningu) á Alþingi á dögunum um umsókn að Evrópusambandinu heyrði ég annað hvort eða las að ungliðar einhverrar stjórnmálahreyfingar "fylktu sér á bakvið varaformanninn". Hvort þeir földu sig þar vegna hræðslu við eitthvert skrímsli eða ætluðu í raun að fylkja sér að baki varaformanninum skal ósagt látið.
TJ (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 23:45
Rétt er það TJ að mjög er algengt að fréttamenn geri ekki mun á atkvæðagreiðslu og kosningu. Það er eins og sumir þeirra skilji ekki að þetta er ekki það sama. Of oft heyrist hitt líka að fylkja sér á bak við einhvern , sem er bara bannsett rugl.
Eiður (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 06:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.