5.8.2009 | 19:43
Molar um málfar og miðla CXVII
Í fréttum RÚV hljóðvarps klukkan 1800 (04.08.2009) var sagt: Lögbann á fréttaflutning Ríkisútvarpsins var formlega aflétt í dag. Fréttin var um málefni Kaupþings. Hér átti auðvitað að segja: Lögbanni á fréttaflutning Rúv var formlega aflétt. Svo maður vitni í frægar bókmenntir , sagði ekki Sherlock Holmes: Elementary, my dear Watson? Einfalt mál minn kæri Watson. Þetta var hinsvegar rétt í Sjónvarpsfréttum RÚV.
Ekki kann Molaskrifari við þann sið,sem nú bfreiðist ört út, en það að segja að hafa gaman saman. Þetta finnst mér ekki gott mál. Beint úr ensku. Have fun together Við getum skemmt okkur saman , en ekki haft gaman saman, -- finnst mér.
Í fréttum heftur oft verið sagt í dag (04.8.2009) að fimm hundruð flugferðir hafi verið farnar til Vestmannaeyja. En hvað voru margar flugferðir farnar frá Vestmannaeyjum? Jafnmargar? Fleiri? Færri? Hvernig væri að að tala um fjölda flugferða milli lands og Eyja ?
Ekki get ég neitað því að ég fyllist alltaf sérstakri eftirvæntingu þegar sérfræðingur þingflokks Sjálfstæðisflokksins Tryggvi Þór Herbertsson tjáir sig um bankamál í fréttum fjölmiðla. Reynsla hans af bankarekstri hlýtur að vera þingflokki Sjálfstæðisflokksins dýrmæt.
Fínn þáttur þeirra Boga Ágústsonar og Karls Sigtryggssonar um sjálfsstjórn Grænlands. Þetta sýnir að að þarf ekki fjölda manns og mikinn tilkostnað til að gera fróðlega og áhugaverða þætti. Þeir félagar hafa gert margt gott og halda því vonandi áfram. Ýmsir hafa kannski furðað sig á því að forseti Íslands sást ekki nema í fimm sekúndur í þættinum. Þátturinn var hreint ekkert verri fyrir það.
Í öllu þessu tali undanfarinna vikna og missera um hundruð og þúsundir milljarða íslenskra króna, hundruð milljóna og milljarða dollara ,sterlingspunda og evra, veð og trausta og ótrausta lántakendur hefur rifjast upp fyrir mér gömul saga. Það var fyrir tæpum fjörutíu árum er við hjónin eignuðumst barn númer tvö , að sá draumur kviknaði að eignast þvottavél,svo ekki þyrfti lengur að fara með bleyjurnar í þvottavélina hjá tengdamömmu. Fjárráðin voru ekki rúm en við stóðum í skilum með afborganir af 80 fermetra íbúð og vorum hvergi í vanskilum.
Með hálfum huga fór ég í einn af þremur ríkisbönkunum og bað um 20 þúsund króna lán til kaupa á þvottavél. Svarið var stutt. Einfalt nei. Ég hrökklaðist út og fannst ég hafa verið niðurlægður En ég var líklega ekki traustur lántakandi eins og Bakkabræður, Baugsmenn eða Hannes Smárason. Þetta með þvottavélina bjargaðist svo nokkrum mánuðum síðar og hún þjónaði okkur vel og lengi. En það skiptir sem sagt öllu að vera traustur lántakandi. Það fannst þessum bankastjóra ungur blaðamaður ekki vera. Nú þarf þjóðin öll að borga sukk og sóðaskuldir hinna traustu lántakenda , - eða þannig.
Nokkrum árum seinna keypti ég notaðan bíl af sómamanninum Jóni Magnússyni sem kenndur var við Skuld í Hafnarfirði. Þurfti auðvitað að fá um helming kaupverðsins lánaðan eins og þá var alsiða. - Á ég ekki að samþykkja víxla , spurði ég Jón. - Ég vil ekki sá neina víxla, sagði Jón þú kemur bara á tilteknum degi í hverjum mánuði og borgar þetta. - Einhverju sinni stóð illa á, gjalddagi kominn og ekki til fyrir afborguninni. Ég hringdi í Jón og sagði mínar farir ekki sléttar. - Hafðu engar áhyggjur , sagði þessi aldni heiðursmaður. Komdu bara þegar rýmkast um hjá þér. Það gerði ég og fékk kaffi og pönnukökur hjá hans góðu konu eins og venjulega.
Þessu tvennu gleymi ég aldrei.
Athugasemdir
Umfjöllun þín um móðurmálið Eiður er ljómandi góð og jafnvel skemmtileg. En þú ert enn betri þegar þú dregur upp myndir og sögur frá liðinni tíð. Einnig kann ég að meta hreinskilnislegar skoðanir þínar um stjórnmál. Þær einkennast ekki af einhverri flokka pólitík, en fremur af skynsemi og common sense.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 21:06
Sæll Eiður.
Í öllu þessu tali undanfarinna vikna og missera? Kannski fer ég með rangt mál, en mér finnst að þarna hefði verið réttara að segja "Í öllu þessu tali undanfarnar vikur og misseri".
Lilja (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 23:53
Flugferðirnar "til Vestmannaeyja" kveiktu á minningu um auglýsingu frá sólarlandaferðaskrifstofu; lesið var: "Höfum fjölgað næturflugum".
Takk fyrir "örsögurnar" tvær. Eitthvað svo kunnuglegt
Eygló, 6.8.2009 kl. 01:26
Sæl Lilja. Fellst á að þitt orðalag er betra en mitt.
Eiður (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 05:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.