Molar um málfar og miðla CXV

  Furðulegur ljósflötur á Venus veldur usla , er skrifaðað á (Vefvísi 02.08.2009). Usli  er  tjón ,eða óskundi.  Hvaða   tjóni veldur þessu óskundi? Svo er eignarfallið af Venus  auðvitað Venusi.   Það er  afrek  að koma  tveimur villum í  í sex orða setningu.

    Á eyjunni.is  er skrifað.. en hann er sem stendur í sölumeðferð.  Þetta  er  skrifað um skíðaskála í eigu Baugsmanna, sem er til sölu. Orðið sölumeðferð er auðvitað bull.

 Úr Vefvísi (28.07.2009): Ekki er ljóst hvert raunvirði bifreiðarinnar er en talið er að það nemi um eina og hálfa milljón króna. Hér  hefði blaðamaður  auðvitað átt að  skrifa: .. talið er að það nemi um einni og hálfri milljón króna.  Ekki  mjög  sterk máltilfinning.

Meira úr Vefvísi (28.07.2009): „Það er ekkert í okkar útlánareglum sem hafa verið brotnar varðandi þetta mál," segir forstöðumaður  hjá  SP Fjármögnun. Það er ekki mikil hugsun  í þessari setningu hvort sem  það er  sök  blaðamannsins  eða þess  sem ummælin eru  eignuð.

Bloggari  skrifar (28.07.2009): Sagan hefur  kennt okkur ekkert.  Eðlilegra mál  væri  auðvitað:  Sagan hefur ekkert kennt okkur.

Nú hafa borist vso margar  spurningar og   skynsamlegar ábendingar   að  Molaskrifaði hyggst  taka sér    nokkurn umhugsunarfrest og   kannski leggjast um feld um sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll, meinar þú ekki,þágufall?

Helga Kristjánsdóttir, 2.8.2009 kl. 12:53

2 Smámynd: Lana Kolbrún Eddudóttir

Venusar-fréttamaður Vísis átti einnig annað gullkorn í Búdda-frétt í morgun:

"Aðeins munkurinn vissi hvar munirnir voru faldir, en hann ERFÐI son sinn að leyndarmálinu"

Hvað ætli Pétri gamla Pé hefði fundist ? Hann væri líklega kominn með beina línu í Skaftahlíðina...

Lana Kolbrún Eddudóttir, 2.8.2009 kl. 14:27

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hvad  mener  du Helga ?

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 2.8.2009 kl. 21:16

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Loksins fann ég "þig" aftur,mr.    Sæll Predikari,jeg mener;  Að á,stýrir þágufalli.Setningin Furðulegur ljósflötur á Venus-(i) veldur usla. Ég myndi beygja no.Venus svona; Venus nf.
                            Venus þf
                            Venusi þgf
                            Venusar ef    Í annari málsgrein færslunar stendur"Svo er eignarfallið af Venus auðvitað Venusi". Þarna gæti verið um ritvillu að ræða sem kemur mjög oft fyrir hjá okkur öllum. Þetta átti ekki að vera neitt mál af minni hálfu,bara setti þetta fyrst færslan var um málfar.Niðurstaða mín Venusi er þgf. ekki ef. 
 
                       

Helga Kristjánsdóttir, 3.8.2009 kl. 17:20

5 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæl Helga.

Ég var nú reyndar að vísa í setninguna þína, öllu heldur orðið „meinar“ : „Sæll, meinar þú ekki,þágufall?“

Meinar er vafalaust rammdanskt og því setti ég athugasemdina mína fram á þennan hátt. Sennilega hefur orðið þó unnið sér einhvern sess hjá okkur allt eins g „fortóv“ og „altan“

Skilgreining málfarsstöðvarinnar er eftirfarandi :

meina , meinaði meinað

[skilgr.] skaða, hindra

[dæmi] meina manni aðgang

Einn af snjöllu fræðimönnunum okkar í ylhýra móðurmálinu sagði eitt sinn að sá sem kynni góð skil á dönsku, kynni þar með góð skil á móðurmálinu þar sem hann kynni að varast hinn mikla aragrúa danskra orða sem hafa lætt sér inn hjá okkur.

  

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 3.8.2009 kl. 18:16

6 identicon

Á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar kemur fram að orðið Venus í þágufalli getur hvort heldur verið Venus eða Venusi. http://bin.arnastofnun.is/

Lilja (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 20:27

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hafa skal það sem réttast reynist.     Eru svo minnisstæðir Íslenskutímar hjá séra Eiríki  skólastjóra á Núpi,eða setningarfræðin,maður minn frumlag,andlag,búin að týna því nær öllu,eða sögnina sem hér kemur við sögu, að meina,neita því ekki að það var gaman að læra um,sterkar og veikar og allar "tíðirnar sem sagnir báru. Get alveg skilið að þgf.Venusar(nú er ég að prenta eignarfallsmyndina)geti verið hvort sem er Venus eða Venusi,Lilja mín góð en var að´andæfa að hún gæti verið eignarfall.  Æ! hvað er gaman að skiptast á skoðunum um annað en stjórnun Ísl. Góð tilbreyting.   PS: Eiríkur kallinn var feikilega góður í dönsku,takk fyrir öll.

Helga Kristjánsdóttir, 4.8.2009 kl. 02:03

8 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Óafsakanleg aulavilla. Auðvitað átti þetta að vera þágufall. Bið  afsökunar.

Eiður Svanberg Guðnason, 4.8.2009 kl. 08:21

9 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Biðst afsökunar átti þetta að vera.

Eiður Svanberg Guðnason, 4.8.2009 kl. 08:22

10 Smámynd: Magnús Axelsson

leggst maður ekki undir feld?

Magnús Axelsson, 4.8.2009 kl. 14:31

11 identicon

Helga mín góð! Athugasemd mín var reyndar ekki ætluð þér heldur Eiði. Ég hefði að sjálfsögðu átt að taka það fram. Hann sagði að þágufallið af orðinu Venus væri auðvitað Venusi. Það var einungis það sem ég vildi leiðrétta. 

Þessir pistlar eru annars oft og tíðum um margt fróðlegir. Kærar þakkir Eiður.

Lilja (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 17:09

12 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Æi! elskurnar ég er svo framhleypin stundum,trúi að það sé fyrirgefið.Þetta er svo áhugaverð síða um málfar og ísl. mál. Takk fyrir.

Helga Kristjánsdóttir, 5.8.2009 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband