Molar um málfar XIX

Það er  vandi að semja  fyrirsagnir. Snjallar fyrirsagnir  laða  til lesturs. Vondar fyrirsagnir fæla og  stinga í augu. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag  er  svohljóðandi fyrirsögn: „Meirihlutinn  vill Jóhönnu í formann”. Þessi fyrirsögn er   málleysa og er  óþarfi að hafa fleiri orð um það. En það er illskiljanlegt hversvegna  svona  fyrirsögn   ratar  á forsíðu dagblaðs. Ætli sé  búið að  segja  prófarkalesurum Fréttablaðsins upp? Það er  engu líkara. Fyrirsögn vefmogga á frétt um sama efni er: „Flestir vilja Jóhönnu sem formann”. Fín fyrirsögn.

 

Úr vefvísi í dag:„ Hún var síðan beitt dagsektum fyrir að brjóta gegn umgengisrétti föðursins.”  Orðið umgengi er  vissulega  til og orðabókin  segir  það þýða  meðalgöngu  eða  atbeina.  Hér ætti  hinsvegar    standa  umgengnisrétti, en umgengni er félagsskapur  eða samvistir. Þá er  hið  venjulega  eignarfall af orðinu faðir  -  föður.  Orðabók  sýnir að vísu  eignarfallið  föðurs  en merkir það  með !?  sem þýðir að það er ekki talið  gott mál. Undir það skal  tekið.

 

„Þetta var algjörlega sent í hugsunarleysi.”  Þessi setning  er úr  afsökunarbréfi sem sent  var vegna  þess að prófkjörsframbjóðandi  hafði gróflega misnotað  tölvupóst íþróttafélags þar sem  frambjóðandinn reyndar gegnir  formennsku. Átt er  við að tölvupósturinn hafi verið  sendur í hugsunarleysi eða í algjöru hugsunarleysi. En orðið algjörlega er kækorð  hjá mörgum  sem tönnlast á því í  tíma og ótíma.  Annað kækorð  er  frábært og  sumt  sjónvarpsfólk notar það í annarri hverri  setningu

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Heyrðu! Frábært! Ég hafði ekki pælt í þetta. Gæti þó gengið eftir.

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 13.3.2009 kl. 08:59

2 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Prófakalestur hefur trúlega verið aflagður á flestum prentmiðlum. Um daginn auglýsti ríkisútvarpið eftir málfarsráðunauti þannig að á þeim bæ ætla menn trúlega enn um sinn að djöflast í því flagi.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 13.3.2009 kl. 13:02

3 identicon

Eiður, þakka þér kærlega fyrir að halda uppi þessu spjalli um málfæri--það er mikið að einhverjum skuli blöskra það sem blaðamenn og bloggarar geta látið frá sér fara!!  Sorglegt að sjá þessa blöndu af lélegri ensku og enn lélegri íslensku sem jafnvel blaðamenn komast upp með nú til dags (eins og þú heyrir er ég svona frekar af gamla skólanum!)  Haltu þessu endilega áfram.

Beztu kveðjur--ég var flutt af landi burt áður en zetan var lögð niður og hef ekkert verið að flýta mér að sleppa henni--"það var ekkert sagt mér það" segja víst börnin í dag.

Jóna Hammer (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband