Molar um málfar og miðla 2090

SLYS OG SKÝRSLA

Enn eitt banaslysið varð í sandfjöru við suðurströndina í gær , þegar úthafsalda hreif fjölskyldu, hjón og tvo unglinga með sér. Unglingarnir og faðirinn björguðust en konan drukknaði. Í fréttum Ríkissjónvarps (09.01.2017))var sagt, - sjúkrabílar fluttu afganginn af fjölskyldunni til Reykjavíkur. Ekki mjög vel orðað.

 Í frétt um  þetta hörmulega slys á mbl.is (10.01.2017) segir: ,, Um klukku­stund eft­ir að til­kynn­ing um slysið barst sást hvar kon­an rak á land í fjör­una skammt aust­an við Dyr­hóla­ós.“ Þessi villa sést of oft. Konan rak ekki á land. Konuna rak á land. Enginn yfirlestur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/10/for_ut_med_soginu/

 

 Í viðtali við fulltrúa Landsbjargar í fréttum Stöðvar tvö (09.01.2017) kom fram, að til er skýrsla frá árinu 2010 þar sem meðal annars er fjallað um brýnar aðgerðir til að tryggja öryggi ferðamanna. Sú skýrsla virðist hafa legið í ráðherra/ráðuneytisskúffum í ein sex ár og ekkert með hana gert. Hverjir bera ábyrgð á því? Ráðherrar ferðmála? Væri nú ekki ágætt efni í einn Kastljóss þátt eða svo að fjalla svolítið um þessa skýrslu, aðgerðaleysi stjórnvalda og hvað gera þurfi strax?

 

KYNNING Á STJÓRNARSÁTTMÁLA

Þegar Bjarni Benediktsson verðandi forsætisráðherra kynnti stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar í Gerðarsafni (10.01.2017) sagði hann meðal annars: ,, Í stjórnarsáttmálanum birtast áherslur flokkanna þriggja í mörgum málaflokkum, sem við teljum að tali mjög vel inn í þetta ástand og skipti máli til að viðhalda ….“ - og: ,,Stjórnarsáttmálinn talar þannig mjög vel inn í ástandið á Íslandi í dag“. Molaskrifari játar að þetta orðalag, - að stjórnarsáttmáli tali inn í ástandið á Íslandi er honum framandi  Sennilega átti ráðherra við að í stjórnarsáttmálanum væri tekið á, fjallað um, vanda íslensks samfélags í dag.

 

AÐ BLÆÐA

Notkun sagnarinnar að blæða vefst fyrir ýmsum. Einhverjum blæðir, - það rennur blóð úr einhverjum, segir orðabókin. Sbr. e-m blæðir út blæðir til ólífis, - deyr vegna blóðmissis. Visir.is greindi ( 09.01.2017) frá stúlku, sem sögð er haldin óvenjulegum sjúkdómi, það blæðir úr augum hennar, nefi og eyrum. Í fréttinni sagði: ,, Fólk hefur horft á hana byrja að blæða í skólanum.“ – Þetta hefði átt að orða á annan veg. –Til dæmis:  Fólk hefur horft á þegar henni byrjar að blæða. http://www.visir.is/segir-augnblaedingu-hja-dottur-sinni-ekki-folsun/article/2017170119981

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband