6.1.2017 | 14:23
Molar um málfar og miðla 2088
ELDINGAR
Þegar fjöldi eldinga sló niður var sagt í næturfréttum Ríkisútvarps (05.01.2017). Eldingarnar slógu ekki niður. Eldingum sló niður. Þegar fjölda eldinga sló niður. Enginn las yfir.
KYNNING Á LÍKAMSRÆKT
Í Kastljósi Ríkissjónvarps (04.01.2017) var fjallað um líkamsræktarstöðvar. Þar var talað um þjálfun í líkamsræktarstöðvum, sem er hreint ekki ókeypis. Þar var hins vegar ekki talað um þá líkamsrækt sem er ódýrust og kostar ekki neitt nema góða gönguskó og hlífðarfatnað. - Að ganga úti ( eða inni þegar er mikil hálka eða óveður) og borða minna. Of fáir hugsa í þá veru.
NÓAFLÓÐ SYKURSINS
Töluverð umræða hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu um sykurneyslu á Íslandi og þyngd Íslendinga. Sérfræðingar eru á því að hvítur sykur sé megn óhollusta, megi næstum kalla eitur, segja sumir. Mikið væri fróðlegt ef aðalsykurdreifararnir, íslenskir gosframleiðendur og Mjólkursamsalan upplýstu hve mörg hundruð tonn af sykri þeir nota í framleiðslu sína á ári.
Á sjötta áratugnum vann ég sumarlangt í Haga í vesturbænum þar sem Eimskip var með vörugeymslur syðst við Hofsvallagötu. Handan götu var Vífilfell, sem framleiddi Kóka kóla. Man eftir vörubílalestum sem komu þangað hlaðnar 45 kílóa léreftspokum með sykri, þegar verksmiðjan fékk sykursendingar. Þá dalaði áhuginn á þessum drykk, nema til mjög takmarkaðs brúks. Sykurpokar voru hins vegar fengnir í verslunum, þegar þeir höfðu verið tæmdir. Svo voru þeir þvegnir og bleiktir þar til merkingar hurfu af þeim að mestu og notaðir í lök, koddaver og sængurver á heimilum þar sem hlutirnir voru nýttir vel og ekki úr miklu að spila. Sama gilti um hveitipoka. Það sást oft djarfa fyrir Gold Medal og Phillsbury merkjum á sængurfatnaði í mínu minni. Vann við að sendast, afgreiða og vigta upp sykur, hveiti . rúgmjöl og fleira í tveimur nýlenduvöruverslunum. Fyrstu Skeifunni á horni Snorrabrautar og Njálsgötu sumurin 1952 og 1953 og í verslun Axels Sigurgeirssonar í Barmahlíð 8 veturinn1953 til 1954 fyrir hádegi fram að skólatíma kl 13 45 . Námsbókunum var ekki mikið sinnt veturinn þann !- En þetta var nú útúrdúr !
Smáviðbót af visir.is (04.01.2017): ,,Íslenskt neftóbak hækkaði um 60 prósent í verði um áramótin. Fæst nú íslensk neftóbaksdós á 3.058 krónur í verslunum Hagkaupa. Væri ekki tilvalið að hækka sykurverð um sömu prósentu? Um 60% ? http://www.visir.is/islenskt-neftobak-haekkadi-um-60-prosent-i-verdi-um-aramotin/article/2017170109729
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.