4.1.2017 | 10:08
Molar um málfar og miðla 2086
LANGLOKA OG ENDURTEKNINGAR
Geir Magnússon, sem er búsettur erlendis, fylgist vel með íslenskum fjölmiðlum. Hann skrifar Molum af og til en hefur stundum samband beint við fréttamenn, þegar honum þykir eitthvað athugavert við texta og bendir á hvað betur mætti fara. Því er misjafnlega tekið, að hans sögn. Geir benti Molaskrifara á þessa frétt eða grein á mbl.is (30.12.2016). http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/12/30/einstakur_vidburdur_a_nordurskautinu/
Geir segir þetta,, langloku og endurtekningar“. Best er að lesendur dæmi hver fyrir sig. Þakka ábendinguna, Geir.
HÚS ÚR TRÉ
Þetta er úr frétt um skógarelda í Síle á visir.is (03.01.2016): ,, Skógareldarnir kviknuðu síðdegis á mánudag í grennd við vatnið Laguna Verde og náði að breiðast út til Playa Ancha, þar sem mikill fjöldi er af húsum úr tré.“ Hér hefði farið ólíkt betur á því að segja til dæmis: … þar sem mikið er um timburhús. Mikill fjöldi húsa úr tré er ekki vandað orðalag. Þar að auki er augljós málvilla í setningunni. Enginn metnaður. Enginn les yfir.
http://www.visir.is/slokkvistarf-gengur-vel-i-chile/article/2017170109704
EKKI FRÉTT
Hér er dæmigerð svokölluð ekki frétt af visir.is . Skrifað um atburð ,sem ekki getur talist fréttnæmur.
Hér gerðist ekki neitt, nema hvað næsta flugvél á undan þeirri sem um var fjallað var aðeins of sein að beygja af lendingarbraut inn á akstursbraut. Ítrustu öryggisreglum var fylgt. Floginn var auka hringur og svo lent. Engin hætta og engin frétt. Gúrkutíð.
Hér verður það fjölmiðlum líka fréttaefni, ef vegna bilunar eða einhvers annars verður tveggja eða þriggja tíma seinkum á einhverri flugferð. Þykir ekki fréttnæmt frá flugvöllum í öðrum löndum.
FRÁBÆRT!
Í stuttu fréttainnslagi (sem var um það bil ein og hálf mínúta) í fréttatíma Stöðvar tvö (03.01.2017) tókst fréttamanni , sem annars sagði ekki margt, að segja: Frábært, þrisvar sinnum! Það var auðvitað frábært, eða þannig. Frábært er ofnotaðasta orð tungunnar um þessar mundir. http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=SRC9C8C882F-816B-4A9A-9C90-82B81F5DA2E2
Þetta frábæra og merkilega viðtal hefst á 14:30 eða þar um bil.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.