16.11.2016 | 09:51
Molar um málfar og miðla 2053
DAGUR ÍSLENSKRAR TUNGU
Í dag. 16. nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar er dagur íslenskrar tungu. Dagurinn er fánadagur.
Höfum hugfast að allir dagar eru dagar íslenskrar tungu.
Til hamingju með daginn, - og móðurmálið.
ENN UM STARFSMANNASTJÓRA HVÍTA HÚSSINS
Molavin skrifaði (14.11.2016) um meinloku, sem aftur og aftur kemur upp í fréttum, og oftar en einu sinni hefur verið fjallað um í Molum. Molavin segir: ,, Enn vefst það fyrir fréttastofu Bylgjunnar (í hádegisfréttum 14.11.) hvert sé hlutverk æðsta embættismanns bandaríska forsætisembættisins, Chief of Staff. Bylgjan kallar hann starfsmannastjóra og segir hann annast ráðningar starfsfólks embættisins. Það sem nú er í tízku að kalla mannauðsstjóra. Þegar CNN birti þessa frétt fyrst í gærkvöld var vel útskýrt að þetta jafngildi einna helzt forsætisráðherraembætti. Heitið er komið úr hernum, yfirmaður herráðs, og Chief of Staff er milliliður forsetans við alla ráðherra, velur jafnvel í ráðherraembætti í samráði við forsetann og er hans hægri hönd. Við forsetaembættið starfar svo sérstök deild starfsmannamála og þar er yfirmaður sem mætti kalla starfsmannastjóra. Áður hefur verið vikið að þessu í Molum, sem fyrr segir, en skrifari þakkar Molavin þessar ágætu útskýringar.- Í seinni fréttum Rikissjónvarps þennan sama dag var enn og aftur talað um starfsmannastjóra Hvíta hússins. Út í hött. Þetta er ekki flókið mál. Chief of staff í Hvíta húsinu er ekki starfsmannastjóri.
STREITI
Aurskriða féll í lok síðustu viku á þjóðveg númer eitt, hringveginn, fyrir austan. Í hádegisfréttum Bylgjunnar (12.11.2016) var sagt: ,,... lokaðist vegurinn milli bæjanna Núps og Streits. Þetta er á nesinu milli Berufjarðar og Breiðdalsvíkur. Þarna hefur eitthvað skolast til. Enginn bær er þarna, sem heitir Streitur. Þarna er hinsvegar jörðin Streiti, en síðast þegar Molaskrifari vissi til hafði hún verið í eyði í all mörg ár. Streitishvarf er ysti tanginn sunnan Breiðdalsvíkur. Þar var lengi, og er kannski enn viti, sæfarendum til leiðbeiningar. Tæknin hefur nú leyst vitana af hólmi að mestu.
RÉTTRITUN
Það þarf líka að lesa prófarkir þegar sjónvarpsauglýsingar eiga í hlut. Heilsuhúsið auglýsir uppskriftarbók í sjónvarpsauglýsingu (11.11.2016). Það hlýtur að eiga að vera uppskriftabók. Uppskriftirnar hljóta að vera fleiri en ein. Þeir sem semja auglýsingar verða að vanda sig og skila villulausum texta.
VERÐLAUN
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (14.11.2016) var sagt frá heildar útgáfu á ritverkum Einars Más Guðmundssonar í Danmörku. Sagt var verðlaunum og viðurkenningum, sem hann hefur hlotið. Meðal annars hefði hann verið sæmdur bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs. Eðlilegra hefði verið að tala um að hann hefði hlotið bókmennntaverðlaun Norðurlandaráðs, eða honum hefðu verið veitt bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Kannski er þetta sérviska hjá Molaskrifara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.