Molar um málfar og miðla 2049

2049-16

AÐ SAFNA FYRIR ...

Rósa S. Jónsdóttir skrifaði (08.11.2016): ,,Er þetta bara misskilningur hjá mér, eins og ég les þessa fyrirsögn, þá mætti ætla að það ætti að kaupa nýja móður fyrir börnin ? “

Þakka bréfið, Rósa, - þetta er ekki misskilningur. Þetta er villa í fyrirsögninni, - Safna fyrir ungri móður,sem lenti í alvarlega bílslysi á Reykjanebraut. Það er ekki verið að safna fyrir móðurinni. Það er verið að safna fé handa móðurinni, fyrir móðurina. Því miður sést  villa of oft og ber vott um vankunnáttu í íslensku.
http://stundin.is/frett/safna-fyrir-ungri-modur-sem-lenti-i-alvarlegu-bils/

 

EKKI FRÉTT

Í fréttatíma Bylgjunnar í hádeginu á sunnudag (06.11.2016) var tekið fram að Birgitta Jónsdóttir alþingismaður  og raunar borgarstjórinn í Reykjavík einnig, hefðu sótt tónleika í Hörpu. Hvaða máli skipti það þótt Birgitta og jafnvel borgarstjórinn hafi sótt tónleika? Hvað var fréttnæmt við það? Ekki neitt. Þetta var ekki frétt. Persónulega þætti mér nýnæmi að sjá þeim aðeins bregða  fyrir á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. En það hefði ekki verið frétt. Í gamla daga sá maður menntamálaráðherrann Gylfa Þ. Gíslason á öllum sinfóníu og Tónlistarfélagstónleikum, - en það var auðvitað í gamla daga.

 

ALLT KOMST UPP!

Úr frétt á mbl.is (08.11.20116):

Skýrsla Rauða kross­ins um aðstæður aðþrengds fólks í Reykja­vík hef­ur verið tekið út af vef sam­tak­anna, en unnið er að nokkr­um leiðrétt­ing­um í kjöl­far þess að upp komst um nokkr­ar vill­ur í henni. 

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/08/skyrsla_rauda_krossins_tekin_ut_og_lagfaerd/

Það komst ekki upp um villurnar. Það fundust nokkrar villur í skýrslunni.

 

 

 

 

HÆTTULEG AUGLÝSING

Olíusalinn Skeljungur heldur áfram að sýna okkur sjónvarpsauglýsingu  (08.og 09.11.2016) þar sem olíubílstjóri í akstri er að gefa lausum hundi að éta, hundurinn situr við hlið bílstjórans í olíubílnum. Þessi auglýsing er brot á öllum öryggisreglum eins og hér hefur áður verið nefnt. Olíubílar flytja hættulegan farm og bílstjórinn er ekki með hugann við aksturinn, heldur við hundinn, sem er í farþegasætinu. Hann gæti allt eins verið að tala í símann eða senda smáskilaboð undir stýri. Þetta er ekki betra,

 Hvað segir Samgöngustofa?

 Hvað segir lögreglan?

Skeljungur ætti að sjá sóma sinn í að hætta að nota þessa auglýsingu. Hún er hættuleg.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband