8.11.2016 | 14:04
Molar um málfar og miðla 2048
HEILU OG HÖLDNU
Molavin skrifaði (06.11.2016): ,,Rjúpnaskyttur fundust "heilir á höldnu" sagði í fréttayfirliti útvarps í kvöld (6.11.16). Þeir fundust semsagt heilir á húfi, eða komu til byggða heilu og höldnu eins og málvenja býður. Ríkisútvarpið ætti vitaskuld að vera fyrirmynd um meðferð móðurmálsins eins og það var lengst af. Það er ljóst hvar sú ábyrgð liggur og hverjir hafa brugðist. Yfirmenn.
Þakka ágætt bréf, Molavin. Við þetta er engu að bæta.
UNDARLEG VILLA
Á bls. 16 í Morgunblaðinu á laugardag (05.11.2016) var svohljóðandi fyrirsögn þvert yfir síðuna, fimm dálka. Byrjað að hann nýja yfir Þverá við Odda. Áreiðanlega hafa fleiri en skrifari staldrað við. Nýja hvað? Fram kemur þegar lengra er lesið að byrjað er að hanna nýja brú yfir Þverá við Odda. Gæðaeftirlit,- yfirlestur ekki alveg í lagi.
LJÁR Í ÞÚFU
Í tíu fréttum Ríkisútvarps á laugardagsmorgni (05.11.2016) var talað um að vera einhverjum óþægilegur ljár í þúfu. Þarna var, þótt kannski í smáu væri, farið rangt með orðtak. Við tölum um að einhver sé einhverjum óþægur ljár þúfu, erfiður viðureignar, ekki auðveldur í samskiptum,
SNILLD!
Þetta er af heimasíðu Útvarps Sögu (05.11.2016):
Afgerandi meirihluti þeirra sem þátt tóku í skoðanakönnun Útvarps Sögu vilja að láta eigi þingmenn undirgangast undir fíkniefnapróf. Þetta kemur fram í niðurstöðu könnunarinnar sem fram fór hér á vefsíðunni á síðasta sólarhring.
Sá sem þetta skrifaði hefur verið annars hugar, - svona mildilega orðað!!!
http://utvarpsaga.is/vilja-ad-thingmenn-gangist-undir-fikniefnaprof/
SVALIR ÞJÓÐLEIKHÚSSINS
Sjálfsagt hafa fleiri en Molaskrifari hnotið um þessa frétt á visir.is (05.11.2016): http://www.visir.is/sersveit-kollud-til-vid-ad-na-olvudum-ferdamanni-af-svolum-thjodleikhussins/article/2016161109280
Þar segir meðal annars: Á sjötta tímanum veittu lögreglumenn í eftirliti í miðborginni karlmanni athygli en sá hafði klifrað upp á svalir Þjóðleikhússins.
Svalir Þjóðleikhússins? Maðurinn hafði komist út á dyraskyggni Þjóðleikhússins. Þar er að vísu einskonar grindverk, en Molaskrifara finnst fjarri lagi að kalla þetta svalir. Kannski finnst einhverjum að það sé gott og gilt orðalag.
ANNAÐ STARF
Molaskrifari gerir ekki mikið af því að nefna nöfn í fjölmiðlaumfjöllun. En hann leggur til að Krístínu Elísu Guðmundsdóttur verði fundið annað starf á Veðurstofu Íslands að lesa veðurfréttir. Hún getur örugglega margt vel gert, en hún getur ekki lesið veðurfréttir. Áherslur og hrynjandi óravegu frá því sem ætti að vera í íslensku máli.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.