Molar um málfar og miðla 2043

BJÓRAUGLÝSING Á MBL.IS

Sveinn sendi Molum línu. Hann þakkar Molaskrifin og segir (28.10.2016): ,,Sæll Eiður,
Nú álpaðist ég inn á Netmogga (28.10) og sá ofarlega á forsíðunni frétt undir fyrirsögninni Stór jólabjór á 750 krónur. Greip fyrirsögnin athygli mína enda langaði mig að vita hvað væri fréttnæmt við það að stór jólabjór kostaði 750 krónur.

Frétt Netmogga snerist um það eitt að ákveðið kaffihús í miðborg Reykjavíkur hefur ákveðið að bjóða upp á ákveðna tegund af jólabjór og rukka fyrir glasið 750 krónur. Ekkert annað kemur fram í stuttri frétt.

Hvergi kemur fram að um auglýsingu sé að ræða, en blasir það ekki við? Þessu stillir Netmoggi svo upp við hlið aðalfréttar á forsíðu eins og um mikil tíðindi sé að ræða. Hverju sætir?

Eins má setja út á eitt og annað í fréttinni sjálfri. Blaðamaður talar um Ríkið en ekki Vínbúðir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og segir að jólabjórinn komi í sölu þar fimmtán nóvember (15 nóvember) en ekki fimmtánda nóvember (15. nóvember) og síðar er eigandi kaffihússins sagður fæddur sautján desember. Þá segir: "al­gengt verð á stór­um bjór á krana er allt frá 900 krón­ur upp í 1600 krón­ur". Eðlilegra hefði það verið orðað frá 900 krónum upp í 1.600 krónur.”

Þakka bréfið og góð orð um Molaskrifin, Sveinn. Þetta er auðvitað ódulbúin bjórauglýsing, en raðtölupunktunum, sem fyrst vantaði virðist hafa verið bætt við seinna. Lögum samkvæmt er bannað að auglýsa áfengi. Fjölmiðlar hafa það bann að engu. Yfirvöld láta það óátalið. Sem er ámælisvert.

http://www.mbl.is/matur/frettir/2016/10/28/stor_jolabjor_a_750_kronur/

 

TÝND BER

Í klausu á baksíðu Fréttatímans (28.10.2016) segir frá grískri haustjógúrt með íslenskum aðalbláberjum. Þar segir:,,Nú er haustið fáanlegt í 230 gr. glerkrukkum og hefur verið að detta inn í búðir síðastliðna daga”. Vonandi hafa glerkrukkurnar þolað fallið. Enn fremur segir: ,, ... á meðan berjabirgðir endast en berin voru týnd í sumar”. Berin voru týnd í sumar en fundust í haust. Þeir sem fást við blaðaskrif ættu þekkja muninn á sögnunum að týna, - tapa, , glata og að tína, - safna saman , tína ber, tína blóm.

 

YNGSTI ÞINGMAÐURINN

Í fimm dálka fyrirsögn í Fréttablaðinu (bls.10 28.10.2016) segir: Fjórir gætu orðið yngsti þingmaðurinn. Samkvæmt hugsun Molaskrifara getur aðeins einn orðið yngsti þingmaðurinn. Er þetta ekki hugsunarvilla hjá skrifara Fréttablaðsins?

 

Á EINN EÐA ANNAN HÁTT

 Í tvö fréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (28.10.2016) var sagt frá ráðstefnu um ebólu veiruna, sem hófst í Háskóla Íslands klukkan eitt þann sama dag! Fréttamaður sagði okkur, að fyrirlesarar hefðu rannsakað ebólu faraldurinn á einn eða annan hátt! Las enginn yfir? Enginn las yfir. Fyrirlesararnir höfðu væntanlega rannsakað ýmsar hliðar ebólu faraldursins og veirunnar. Í upphafi fréttarinnar var sagt: Viðbrögð ... hefur reynst... Viðbrögð hafa reynst.

 Það er löngu kominn tími til að Ríkisútvarpið taki sig á. Það er margt vel skrifandi og vel máli farið fólk á fréttastofunni í Efstaleiti. Það góða fólk á að lesa og lagfæra fréttir viðvaninganna áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Það gerist ekki nema verkstjóri sé á vinnustaðnum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekkert athugavert við fyrirsögnina Fjórir gætu orðið yngsti þingmaðurinn. Þetta er skrifað fyrir kosningar og þá er ekki ljóst hverjir komast á þing. Þetta er sambærilegt við það að eitthvert blað birti í dag fyrirsögnina Þrír gætu orðið forsætisráðherra. Á endanum er það svo auðvitað bara einn sem verður forsætisráðherra - og einn sem verður yngsti þingmaðurinn. En það er engin hugsunarvilla í fyrirsögninni.

Eiríkur Rögnvaldsson (IP-tala skráð) 2.11.2016 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband