Molar um málfar og miðla 2038

THE VOICE ÍSLAND

Notkun ensku í auglýsingum í íslenskum miðlum fer hraðvaxandi. Þetta er hættuleg þróun. Morgunblaðinu sl. föstudag (21.10.2016) fylgdi auglýsingablað um Sjónvarp Símans. Þar er auðvitað ekki nóg að tala um Sjónvarp Símans heldur heitir það Sjónvarp Símans Premium. Orðið Premium er ekki íslenska. Það er enska.

Verið er að auglýsa sjónvarpsþætti, sem heita The Voice Ísland. Hversvegna ekki Rödd Íslands? Hvað er að því að nota íslensku? Getur Síminn ekki lengur talað við okkur á íslensku?  Svo eru lesendur hvattir til að fylgjast með ,,stærsta íslenska sjónvarpsþætti vetrarins”.  Hvað er stór sjónvarpsþáttur? Hvernig vita símamenn, að ekki komi seinna annar þáttur á annarri stöð , sem er ,,stærri” á einhvern undarlegan mælikvarða.

 Sími er frábært íslenskt orð yfir tæki , tækni, þar sem flestar aðrar þjóðir nota erlend tökuorð. Þessi lítilsvirðing  gagnvart móðurmálinu, - gagnvart íslenskunni,  er þeim Símamönnum ekki til sóma.

 Hamborgarafabrikkan auglýsir sörf og törf, hvað sem það nú er, - ekki íslenska allavega. Stöð tvö auglýsir Maraþon NOW. Hagkaup auglýsir Outlet í Holtagörðum. Fleiri fyrirtæki nota það enska orð í auglýsingum um útsölur, eða lágvöruverðsbúðir. Óteljandi fyrirtæki sletta á okkur ensku orðunum tax-free, þegar þeim þóknast að veita okkur smávægilegan afslátt, - þau eru ekki að sleppa neinum við að greiða skatt. Það er bara uppspuni.

 Er ekki tímabært að hefja átak íslenskunni til varnar í auglýsingum?

 

LESTUR VEÐURFREGNA

Það gengur á ýmsu með lestur veðurfregna frá Veðurstofu Íslands í útvarpinu. Flestir lesarar eru áheyrilegir, - líka þeir sem lesa með erlendum hreim. Einn íslenskur lesari þarf leiðsögn. Hefur þann leiða ósið að draga seiminn í lok flestra, ef ekki allra setninga. .... norðaustantiiiil, hiti níu stiiiiiig.  Hvimleitt, en þetta getur góður talþjálfari örugglega lagfært.

 

AÐ KAUPA

Enn einu sinni nefnir Molaskrifari sagnirnar að kaupa og að versla. Ótrúlega margir fréttamenn kunna ekki að nota þessar tvær sagnir.

Í fréttum Stöðvar tvö (21.10.2016) var talað um breyttar reglur um áfengiskaup í fríhöfninni. Fréttamaður sagði: ,, Nú er þetta þannig að þú getur valið hér eina tegund , eina sort, til þess að versla ....” . Valið þér að kaupa eina tegund, hefði hann betur sagt.

 

AFREK

Molaskrifari horfði á allan þátt Gísla Marteins á föstudagskvöldið (21.10.2016) þar sem : ,,Allir helstu atburðir vikunnar í stjórnmálum, menningu og mannlífi eru krufnir í beinni útsendingu”, svo vitnað sé beint í kynningu Ríkissjónvarpsins á þættinum. Ekki lítið sagt. Þar tókst þó að sleppa því algjörlega að minnast á Seðlabankasímtalið,sem sem enn einu sinni sprakk út í fréttum vikunnar. Og ekki var heldur minnst á Evrópuverðlaunin fyrir fréttaskýringarþáttinn um fv. forsætisráðherra, SDG. Ekki nefnt einu orði. Krufningunni var eitthvað ábótavant. Það verður að passa upp á að rétt efni rati í umræðuna.

Logi Bergmann er ágætur. En vinnur hann ekki á Stöð tvö? Hvað er hann alltaf að gera á Stöð eitt? Halldóra Geirharðsdóttir var best. Takk. - Es. Síðast fékk Bjarni Ben. að skreyta tertu hjá Gísla Marteini. Ég hafði vonast eftir að Sigurður Ingi fengi kannski að steikja kleinur eða baka flatkökur. Sú von brást.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband