Molar um málfar og miðla 2031

 

BROTTVÍSUN

Það kemur fyrir að reyndir þulir og fréttamenn lesi málvillur í fréttum án þess að hika, - hvað þá leiðrétta. Í átta fréttum Ríkisútvarps á föstudagsmorgni (07.10.2016) las fréttamaður: Hælisleitenda sem vísað var úr landi og sendur til Noregs á miðvikudag var sendur hingað aftur samdægurs. Þetta hefur Fréttablaðið eftir .... Þetta hefði átt að vera: Hælisleitandi,sem vísað var úr landi og sendur til Noregs á miðvikudag, var sendur hingað aftur samdægurs ..... Fyrst ætti að lesa yfir og svo þarf sá sem les að hlusta grannt.

 

AÐ KAUPA - AÐ VERSLA

Sæunn Gísladóttir,sem merkir sér þessa frétt á visir.is (07.10.2016). Henni, eins og ýmsum öðrum fréttaskrifurum, er ekki ljós merkingarmunurinn á sögnunum að kaupa og að versla.

http://www.visir.is/pundid-ekki-laegra-sidan-fyrir-hrun/article/2016161009017

 

Sæunn segir í fréttinni: Lækkun gengi pundsins hefur neikvæð áhrif á útflutning íslenskra sjávarafurða til Bretlands og gæti dregið úr neyslu breskra ferðamanna hér á landi. Aftur á móti er nú ódýrara fyrir Íslendinga að versla breskar vörur.

Það er rangt og út í hött að tala um að versla breskar vörur. Hér ætti að tala um að kaupa breskar vörur. Við kaupum breskar vörur í verslunum, sem versla með breskar vörur. Þetta er ekki flókið, eða hvað?

 

Einnig segir í fréttinni: Lækkun gengi pundsins .... Þetta er ekki rétt. Mætti til dæmis vera: Lækkun á gengi pundsins, gengislækkun pundsins eða lækkun gengis pundsins.

 

ENGIN HÆTTA BÚIN

Svohljóðandi fyrirsögn var á visir.is (07.10.2016): Dómarinn telur drengnum engin hætta búin í Noregi. Þetta hljómar ekki rétt í huga Molaskrifara. Kannski er það sérviska. Betra væri að mati Molaskrifara, til dæmis: Dómari telur að drengnum sé engin hætta búin í Noregi. Eða: Dómari telur drengnum enga hættu búna í Noregi.

http://www.visir.is/domarinn-telur-drengnum-engin-haetta-buin-i-noregi/article/2016161009180

 

 

 

ENN ER STAÐSETT.

Orðið staðsett, að staðsetja, er ofnotað og oftast óþarft. Í Augnabliksþættinum úr sögu Sjónvarpsins sl. föstudagskvöld (07.10.2016) var okkur sagt að Gestastofa Ríkisútvarpsins væri staðsett á fyrstu hæð útvarpshússins. Gestastofan er á fyrstu hæð útvarpshússins. Hún er ekki staðsett þar. Hún er þar.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband