7.10.2016 | 10:03
Molar um málfar og miðla 2030
2030-16
FLOGIÐ Í GEGNUM EVRÓPU
Sérkennilegt orðalag í frétt á mbl.is (05.10.2016): Fjögur Evrópuríki sendu herþotur til móts við rússnesku Blackjack-herflugvélarnar sem flugu í gegnum Evrópu til Spánar og til baka í lok síðasta mánaðar.
Það hlýtur að hafa verið mikill skellur, eða hvað?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/10/05/flugu_herthotum_i_veg_fyrir_russa/
AFHENDING VETTVANGS
Annað dæmi um undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (005.10.2016): Hefur slökkvilið því lokið störfum og afhent starfsmönnum hafnarinnar vettvanginn. Hvernig afhenda menn vettvang? Sennilega er átt við að málið sé nú í höndum starfsmanna hafnarinnar.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/05/vikingaskipid_sokk_i_storminum/
BELGAR BJARGA SKIPI
Úr frétt af visir.is (05.10.2016) um skip,sem sökk í Reykjavíkurhöfn: Þegar þetta er skrifað vinna starfsmenn Köfunarmiðstöðvarinnar að því að koma belgum á skipið svo hægt verði að ná því upp og á þurrt. Það var og. Belgir voru notaðir til að lyfta skipinu, belgjum var komið á skipið.
http://www.visir.is/vikingaskipid-vesteinn-sokk-vid-bryggju/article/2016161009296
SPOR
Á baksíðu Morgunblaðsins (06.109.2016) er fyrirsögnin: Yfir Sprengisand í sporum langafa síns. Fréttin er um mann, Jón Þór Sturluson, sem fór gangandi suður Sprengisand, sömu leið og langafi hans hafði gengið fyrir réttum hundrað árum. það er kannski sérviska, en Molaskrifari er ekki fullsáttur við þessa fyrirsögn. Finnst að hún hefði heldur átt að vera, til dæmis: Yfir Sprengisand í fótspor langafa síns. Jón Þór var ekki sporum langafa síns, aðstæður hans voru ekki þær sömu. Langafi hans hélt suður til að hitta unnustu sína og hefja búskap. Jón Þór fór hinsvegar suður Sprengisand í fótspor langafa síns; hann fór í stórum dráttum sömu leið, þvert yfir landið. Skemmtileg frétt og talsvert afrek að ganga þessa leið.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.