Molar um málfar og miðla 1996

HEIMAMENN BRASILÍU OG GESTGJAFAR BRASILÍU !

Í fréttum Ríkisjónvarps á föstudagskvöld (05.08.2016) var sagt frá Ólympíuleikunum, sem átti að setja seinna það kvöld. Íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins í Ríó var að lýsa því hvernig setningarathöfnin færi fram og sagði: ,, ... síðastir koma heimamenn Brasilíu”. Heimamenn Brasilíu? – Hann hefði getað sagt til dæmis: Síðastir koma heimamenn, Brasilíumenn. Eða bara síðastir koma svo heimamenn. – Ef að líkum lætur eigum við eftir að heyra um gestgjafa Brasilíu!

Já, á laugardagskvöld (06.08.2016) talaði íþróttafréttamaður um gestgjafa Brasilíu í Ríó. Hlaut að koma. Dæmalaust bull,sem þetta orðalag er.

 Málfarsráðunautur á ekki að láta þetta óátalið.

Hefur Ríkisútvarpið engan metnað lengur?

 

-LEGA, -LEGA.

Flest erum við sjálfsagt orðin vön því að heyra íþróttafréttamenn segja, - varnarlega og sóknarlega. Í Bylgjufréttum í hádeginu á miðvikudag var sagt: ,, Síðasti mánuður var höfuðborgarbúum óvenju hagstæður veðurfarslega. “. Hefði ekki verið ágætt að segja, til dæmis. Í júlí var veður óvenjulega gott í höfuðborginni.

 

TENGSL VIÐ GÜREN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (03.08.2016) Var sagt: ,,Um átján þúsund Tyrkir hafa verið handteknir eða vísað frá störfum eftir valdaránstilraunina, margir vegna gruns um tengsl við Güren ...” Molaskrifari er á því að þarna hefði átt að segja : ,, ..... mörgum vegna gruns um tengsl við Güren.” - Klerkinn sem er í útlegð í

Bandaríkjunum.

 

 

MÁLIÐ ER Í SKOÐUN

Úr frétt á mbl.is (03.08.2016), - bíl hafði verið fram af bryggju í Reykjavíkurhöfn: ,, Mik­ill viðbúnaður slökkviliðs og annarra viðbragðsaðila er nú við Reykja­vík­ur­höfn. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu barst til­kynn­ing um að bíll væri í höfn­inni og er málið í skoðun.” Þetta er  miður gott orðalag. Vonandi tók þessi skoðun ekki langan tíma. Það er lenska á sumum fjölmiðlum að láta viðvaninga, nýgræðinga, skrifa lögreglufréttir. Yfirmenn, sem ekki lesa slíkar fréttir yfir áður en þær eru birtar , eru ekki starfi sínu vaxnir. Sem betur fer bjargaðist ökumaður, sem var einn í bílnum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/02/bjargad_upp_ur_reykjavikurhofn/

Svona var fréttin svo uppfærð síðar. Staðfestir það sem sagt er hér að ofan: ,, Upp­fært kl 23:00”: ,,Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá slökkviliðinu var einn í bíln­um og hafði viðkom­andi verið bjargað upp í ná­læg­an bát þegar slökkviliðið kom á staðinn. Var kon­unni komið í sjúkra­bíl og keyrt með hana á sjúkra­hús til nán­ari aðhlynn­ing­ar. Staðfest er að aðeins einn hafi verið í bíln­um þegar hann fór ofan í sjó­inn.

Reynt verður að ná bíln­um upp á næst­unni, en kafari slökkviliðsins er á vett­vangi.” – Ja,hérna, Moggi.

SMÆLKI

Í níufréttum Ríkisútvarps (04.08.2016) var tvívegis talað um öldungardeild brasilíska þingsins. Þarna var - r - ofaukið. Einu sinni var réttilega talað um öldungadeild. Enn einu sinni kemur ljós hve mikilvægt er að einhver málglöggur lesi fréttirnar yfir áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Yfirmaður fréttastofunnar virðist enn ekki átta sig á þessu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband