Molar um málfar og miðla 1980

ENDALAUS RUGLINGUR

Þeim fréttaskrifurum virðist fara fækkandi, sem kunna skil á því, að munur er á  að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað.

Í frétt um afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna til búvörusamninganna, sem birt á var á mbl.is (12.07.2016) sagði: ,,Stjórn­ar­and­stöðuflokk­arn­ir munu ekki kjósa með bú­vöru­samn­ing­un­um í óbreyttri mynd.”

Það verður ekki kosið með eða móti búvörusamningunum á Alþingi. Það verða greidd atkvæði um einstakar greinar samninganna, breytingartillögur og svo samningana í heild í formi lagafrumvarps, sem þá verður samþykkt sem lög frá Alþingi.

Furðulegt að þessi ruglingur skuli sjást og heyrast hvað eftir annað. Þjóðin kaus sér forseta. Alþingi kýs í ráð og nefndir og þar fara fram atkvæðagreiðslur um lagagreinar og lög.

Það starfa reyndir menn á Morgunblaðinu, sem ættu að geta útskýrt þetta fyrir nýliðum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/12/stjornarandstadan_a_moti_samningunum/

 

EIGNARFALLS –S OG FLEIRA

Gylfi skrifaði eftirfarandi (13.07.2016): ,,Sæll Eiður og takk fyrir góða pistla. Af mbl-vefnum 13. júlí 2016. 
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/13/cameron_verdur_ekki_domari_i_strictly_come_dancing/ 
"Fyrsta spurning Corbyns sneri hins vegar að fjölda heimilislausra í Bretlandi og hvað Cameron vilji gera til að bæta úr fjölgun þeirra."

 

"Kunningjaleg skot flugu á milli Corbyns og Camerons í dag og var léttari stemning í salnum en oft áður."

Fréttabarn, geri ég ráð fyrir. 

Ég velti því jafnframt fyrir mér hvort rétt sé (hefð sé fyrir) að setja íslenskt eignafall (s) aftan við erlend eftirnöfn eins og þarna er gert. 
Væri t.d. rétt að tala um húsin þeirra Davids Camerons og Jeremys Corbins?" (húsið hans Jóns Jónssonar). - Þakka bréfið, Gylfi. – Það er talsvert á reiki, sýnist mér fljótt á litið, hvernig eignarfalls – s í íslensku eru notað með erlendum mannanöfnum.

 

 

 

BEYGINGAR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (12.07.2016) sagði fréttamaður: ,,Suður Kínahaf spannar yfir þrjár milljónir ferkílómetra hafsvæði þar sem eru alþjóðlegar siglingaleiðir ...” Réttara hefði að mati Molaskrifara verið að segja, að Suður Kínahaf spannaði yfir þriggja milljón ferkílómetra hafsvæði ....

 

ÞJÁST AF MATARSKORTI

Á mbl.is var ( 12.07.2016) skrifað um ástandið í Venesúela: ,, Lands­menn þjást af mat­ar­skorti ...” Hefði ekki verið einfaldara að segja, að hungursneyð ríkti í landinu ? http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/12/hermenn_dreifa_mat_i_venesuela/

 

FYRIRSPURN

Í Molum 1262 fyrir 2-3 árum var nefnt, að glöggur lesandi hefði minnt á þá tillögu  Helga Hálfdanarsonar að kalla lögregluþjóna lögþjóna. Molaskrifara hefur verið inntur nánar eftir þessu, en finnur ekki tölvubréfið þar sem frá þessu var sagt. Sjálfsagt komið í glatkistu pósthólfsins fyrir löngu. Ef sá sem minnti á þetta, les þessar línur þætti skrifara vænt um að heyra frá honum/henni – netfangið er eidurgudnason@gmail.com eða skilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband