Molar um málfar og miðla 1960

HNÖKRAR

Nokkra málfarshnökra mátti heyra í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (05.06.2016). Þar var meðal annars sagt: ,, ... í útför hnefaleikakappans Mohammeds Ali sem gerður verður frá Louisville í Kentucky á föstudag.” , - sem gerð verður.

Einnig var sagt: ,, Hinsegin framhaldsskólanemum líður mun verr en gagnkynhneigðum skólasystkinum sínum”. Skólasystkinum þeirra, finnst Molaskrifara að þetta hefði átt að vera.

 

FRAMSÓKNARMAÐUR DÚXAÐI

Þetta er fyrirsögn af mbl.is (07.06.2016). Já, mbl.is finnst það greinilega fréttnæmt, að Framsóknarmaður skuli hafa náð góðum námsárangri. Hvenær fór það að tíðkast að tilgreina stjórnmálaskoðanir þeirra sem standa sig best á prófum? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/07/framsoknarmadur_duxadi/

POTTURINN ER EKKI BÚINN AÐ FARA ÚT

Molalesandi spyr, hvar endar svona málfar ? Hann vísar til þessarar fréttar á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/07/staersti_pottur_i_sogu_vikingalottos/

Í fréttinni segir meðal annars:

 „Of­urpott­ur­inn er ekki bú­inn að fara út í þrjá­tíu og eina viku svo hann er bú­inn að safn­ast upp og er því orðinn svona stór. Þetta er því lang­stærsti Vík­ingalottópott­ur sem hef­ur verið í sög­unni,“ seg­ir Stefán Kon­ráðsson, fram­kvæmda­stjóri Íslenskr­ar get­spár, um Vík­ingalottópott­inn sem dreg­inn verður út á morg­un.” Molaskrifari þakkar ábendinguna og segir bara: Von er að spurt sé.

 

HALLÓ MOGGI !

Af mbl.is (06.06.2016): ,,Greint var frá því í kvöld­frétt­um RÚV í gær, að starfs­menn fyr­ir­tækis­ins Stay Apart­ments hafi verið sagt upp störf­um eft­ir að hafa kraf­ist þess að fá fasta starfs­mannaaðstöðu.” Var starfsmenn sagt upp störfum? Starfsmönnum var sagt upp störfum. Í fullri vinsemd, mbl.is. Lesið yfir og leiðréttið aulavillur af þessu tagi. Þær eru því miður alltof algengar á skjánum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/06/bregdast_strax_vid_mali_stay_apartments/

 Í frétt Ríkisútvarpsins um þetta sama mál segir: ,,Hóteleigandinn viðurkennir að hafa beygt reglur í ellefu ár.” Beygt reglur! Það orðalag er Molaskrifara framandi. Greinilega braut maðurinn gildandi reglur.

 

ÚTFÆDDUR

Geir Magnússon,sem er búsettur erlendis,segist hafa komist í slæmt skap eftir að hafa lesið á mbl.is (?) um reykspólun ökufanta í vesturbænum í liðinni viku.

Hann segir, meðal annars: ,,Þetta var löng og illa skrifuð grein um konu í vesturbænum, sem var að kvarta undan hávaða í spyrnubílum um nætur. Fréttabarnið fyllti dálk eftir dálk um lítið efni og klykkti svo út með mynd af konunni, sem kvartaði.
Þetta kom mér svo til að hugsa um ástkæra ylhýra málið.
Kom þá í hug orðið útfæddur, um mann,sem ekki er fæddur á Íslandi og því ekki innfæddur.
Hvað segir þú um þetta orð?” Molaskrifari hefur ekki heyrt þetta orð áður og finnst það ekki hljóma sérstaklega vel. Geir segir einnig:,, Í greininni um hávaða í Vesturbænum notaði blaðabarnið marg oft sögnina að “driftera”. Ragnar sonur minn sagði þetta vera amerískt tökuorð og merkti það að gefa í svo snögglega að bíllinn spólar og hrökklast til hliðar. Stakk Ragnar upp á því að kalla þetta ”hliðarspól”.

Hvað finnst þér?” Er það ekki ágætis nýyrði? Þakka bréfin.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband