Molar um málfar og miðla 1952

FLAK KAFBÁTAR

Af mbl.is (25.05.2016): Fundu flak bresks kafbátar, segir í fyrirsögn á mbl.is . Sama villan í fréttatextanum. ,,Kafari fann ný­verið flak bresks kaf­bát­ar frá árum síðari heims­styrj­ald­ar­inn­ar við strend­ur ít­ölsku eyj­ar­inn­ar Sar­din­íu. Kaf­bát­ur­inn HMS P 311 fórst í janú­ar 1943 með 71 mann um borð.” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/25/fundu_flak_bresks_kafbatar/

Gömul saga og ný. Enginn les yfir það sem viðvaningar skrifa.

Fleiri sáu þetta: Molavin skrifaði (25.05.2016) "Fundu flak bresks kaf­bát­ar" segir í fyrirsögn á Netmogga (25.05.2016) og er endurtekið svo í frétt. Innsláttarvillur má auðveldlega fyrirgefa en að blaðamaður kunni ekki að beygja jafn algengt nafnorð og "bátur" í eignarfalli er neyðarlegt. Í eina tíð voru svona vinnubrögð kölluð "moggafjólur." Væru fréttir viðvaninga lesnar yfir af reyndu fólki mætti draga úr þeirri smán, sem forðum virtir fjölmiðar verða æ oftar að sæta.”

Þakka bréfið, Molavin.

Þorvaldur sá þetta líka og segir í bréfi til Mola:,, Í vefmogga í gær er sagt frá ítölskum kafara sem fann flak kafbáts. Margtuggið er í frétt og fyrirsögn  "fann flak kafbátar" Enn eitt dæmi um vankunnáttu í fallbeygingu einföldustu orða” Þakka bréfið. Þorvaldur.

Um beygingu orðsins bátur:

http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=b%C3%A1tur

Önnur beygingarvilla á mbl.is sama dag: ,, Um var að ræða tæp­lega sex þúsund tonn af kvars, stein­teg­und sem er meðal grun­nefna sem notuð eru við kís­il­málm­vinnsl­una.” Þarna hefð átt að tala um sex þúsund tonn af kvarsi. Ekki sexþúsund tonn af kvars.

 

MIKIL GÆÐI

Úr yfirlýsingu frá Íslenskri erfðagreiningu,sem birt var á mbl.is (24.05.2016): ,, Það var hins veg­ar mat vís­inda­manna ÍE að rann­sókn­ir Roberts væru ekki af mikl­um gæðum og að upp­kast að vís­inda­grein sem hann deildi með þeim væri ekki birt­ing­ar­hæft. Molaskrifari hallast að því að í stað þess að segja að rannsóknir væru ekki af miklum gæðum, hefði verið betra að segja að rannsóknirnar hefðu ekki verið vandaðar.

 

 

LANDVEGAMÓTIN

Af forsíðu visir.is (24.05.2016):,, Einn var fluttur alvarlega slasaður með þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir bílveltu nærri söluskálanum við Landvegamót á Hellu.” Landvegamótin eru ekki á Hellu. Enn eitt dæmið um lélega landafræðikunnáttu fréttaskrifara. Landvegamótin eru talsvert vestan við Hellu. Giska á 6-8 km.

 

AÐ VERA KUNNUGT UM

Af. dv.is (24.05.2016) :,, Hildur starfar sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild og er því vel kunnug um þær hættur sem fylgja rafhlöðum,”. Hér hefði fremur átt að standa : ... og er því vel kunnugt um þær hættur,sem fylgja rafhlöðum. Eða: ... vel kunnug þeim hættum, sem fylgja rafhlöðum.

 

AÐ LIGGJA VIÐ HÖFN

Enn einu sinni hefur ambagan að skip liggi við höfn, ratað inn í fréttaskrif. Í þetta sinn á mbl.is (25.05.2016). Þar segir um sjö karlmenn ,sem reyndu að komast um borð í skip,sem lá við bryggju á lokuðu svæði við Sundahöfn: ,, Lög­reglu grun­ar að menn­irn­ir hafi ætlað sér að reyna að kom­ast um borð í frakt­skip sem lá þar við höfn. Skip liggja við bryggju. Skip eru í höfn. Skip geta legið við festar. Skip geta legið við akkeri. Skip liggja ekki við höfn.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/25/handteknir_a_lokudu_hafnarsvaedi/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband