Molar um málfar og miðla 1949

AÐ VERA STADDUR

Sigurður Sigurðarson, sendir Molum oft athyglisverðar ábendingar um það sem betur mætti fara í málfari í fjölmiðlum. Það þakkar Molaskrifari. Sigurður skrifaði (20.05.2016): ,,Þetta var upphaf fréttar sem skrifuð var á mbl.is:

Björg­un­ar­sveit­ir voru kallaðar út að Nausta­hvilft á Ísaf­irði vegna fót­brot­ins karl­manns sem þar er stadd­ur.

Aumlega saman klúðruð málsgrein. Suma þarf að einatt að staðsetja þegar hægt er að nota sögnina að vera. „… sem þar er staddur.“ Þarf að taka það fram fyrst björgunarmenn voru sendir á ákveðinn stað. Og hvar í ósköpunum er Naustahvilft?

Betur hefði farið á að segja þetta og bæta við upplýsingum: 

Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna manns sem hafði fótbrotnað í Naustahvilft, sem er skál í Kirkjubólsfjalli gegnt Ísafjarðarbæ.” Þakka bréfið, Sigurður.

 

AUGLÝSINGAR Á ENSKU

Ingibjörg skrifaði (20.05.2016):. ,,Þú og fleiri eru stundum - og með réttu - að agnúast út í enskuslettur í auglýsingum eins og ‘Tax free’ og 'Outlet' f. lagersölu. En mér sýnist allir láta LINDEX í friði, en sú keðja slettir ekki, hún auglýsir BARA á ensku, sem mér finnst miklu verra. Maður spyr sig, hvað gengur fólkinu til? Er þetta ekki sænsk keðja? Þetta er ekki verslun sem höfðar sérstaklega til túrista eða annarra útlendinga.” 

Ingibjörg bætti svo við:,, Kannski tekur þú ekki eftir auglýsingum um föt fyrir konur og börn. Ég er að tala um auglýsingar, oft heilsíðu, sem birtast í Mbl.+ Fréttabl. með mynd af fólki í fötunum, stuttur texti með, eingöngu á ensku. Slagorðið núna er: "Love your summer", og sama áletrunin er í sjónvarpsauglýsingum, ekkert tal á íslensku. 

Mér dettur nú í hug þátturinn "Daglegt mál" í gamla daga, þar sem agnúast var út í vont mál á opinberum vettvangi. Ég fór mjög ung að hlusta á þetta eins og annað í Útvarpinu, og ég man aldrei eftir að neitt hafi verið tekið fyrir sem tilheyrði reynsluheimi kvenna og barna. Þar var samt nóg af slettunum, þá kannski mest úr dönsku.” Þakka bréfið, Ingibjörg.

 

 

 

ALLT Í KLESSU

Í þessari stuttu frétt á mbl.is (21.05.2016) er tvisvar sinnum sagt að rúta hafi klesst á hól! Æ algengara er að sjá barnamálfar í fréttaskrifum. Reyndur blaðamaður Jóhannes Reykdal vakti athygli á þessu á fésbókinni. Sjá. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/21/37_letu_lifid_i_rutuslysi/

 

SIGRAÐI FORKOSNINGARNAR!

Af fréttavefnum mbl.is (20.05.2016): Eft­ir að Trump sigraði for­kosn­ing­ar re­públi­kana fyrr í mánuðinum viður­kenndi Ca­meron þó að hann hefði náð góðum ár­angri. Sigraði forkosningarnar! Það var og ! Að sjálfsögðu sigraði Trump ekki forkosningarnar. Hann vann sigur í forkosningunum. Ótrúlega erfitt að hafa jafn einfalt mál rétt.

 Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/20/trump_bodid_til_bretlands/

EFTIR HÆTTI

Það eru víst allir, eða næstum allir,- nema Molaskrifari, hættir að kippa sér upp við það þegar skorið er af fréttum eða Kastljósi vegna boltaleikja. Það var gert sl. fimmtudagskvöld (19.05.2016). Kastljósið stytt og svo kom tveggja tíma bolti. Alveg fram að seinni fréttum klukkan 22 00. Þetta er hin venjulega forgangsröðun í Efstaleiti. Allt eftir hætti.

Til hvers er þessi svokallaða íþróttarás? Upp á punt?

 

VILLULAUS FRÉTT!

Sigurður Sigurðarson skrifaði (22.005.2016): ,,Til tíðinda bar á dv.is í dag að ég rakst á frétt sem var villulaus. Að vísu er ég ekkert sérstaklega glöggur í prófarkalestri, en það er sama. Þegar svona undur gerast gætir maður ósjálfrátt að því hver skrifar, rétt eins og þegar um villur er að ræða. Og viti menn. Höfundurinn var Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV. Ekki veit ég í hverju vinna hennar felst en hún mætti að ósekju skrifa fréttir og setja tvö þrjú blaðabörn í önnur störf á ritstjórninni, til dæmi í að sópa og laga til”. Þakka bréfið Sigurður. Já, Kolbrún ætti að skrifa fleiri fréttir, - eða lesa barnaskrifin yfir fyrir birtingu!

 


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband