Molar um málfar og miðla 1944

 

MÁLFARSÓVITAR

Molavin skrifaði (07.05.2016): ,,Ríkisútvarpið hefur málfarsráðgjafa á launaskrá og Morgunblaðið birtir daglega þátt um það sem betur má fara í málfari fréttamanna. En það er sem þetta nái ekki til þeirra sem ætlað er að læra. Morgunblaðið birtir í dag, 7. maí, forsíðufrétt með fyrirsögninni: Metfé fyrir lúxusíbúðir. Um það hefur verið ítarlega fjallað að orðið "metfé" táknar ekki upphæð, ekki metupphæð. Verðlaunahrútur eða stóðhestur getur hvor tveggja verið metfé. Verið í miklum metum. Óvitar á fréttastofum eru þeir blaðamenn sem takmarkað vita og vilja ekki læra. Þeir eru ekki í miklum metum meðal lesenda og hlustenda.” Hverju orði sannara, Molavin. Þakka þér bréfið. Óvitar hlíta ekki leiðsögn. Vita allt best. Of mikið af slíku fólki er á fréttamiðlum. Rétt er að bæta við, að reglulega err fjallað um málfar í Ríkisútvarpinu í Málskoti á Rás 2 á þriðjudagsmorgnum og í þáttunum Orð af orði, sem málfarsráðunautur annast.

HAGKAUP SKRÖKVAR AÐ OKKUR

Í sjónvarpsauglýsingum fyrir helgina skrökvaði Hagkaup að okkur. Aftur og aftur. Fyrirtækið sagðist afnema virðisaukaskatt af snyrtivörum. Það var ósatt.

Hagkaup getur ekki og hefur ekkert vald til að afnema virðisaukaskatt af vörum,sem þar eru á boðstólum..

Um var að ræða tæplega tuttugu prósent afslátt frá áður auglýstu verði. Svo ætti þetta stórfyrirtæki (og fleiri) að hætta að nota í síbylju enskuslettuna TAX FREE í auglýsingum. Það er ekki verið að gefa viðskiptavinum neinn skattaafslátt. Bara venjulegan afslátt. Hvað segir Neytendastofa um svona auglýsingar?

 

HEIMILISBYGGINGAR

Í fréttum Ríkisútvarps (05.05.2016) var sagt borgarstjóraframbjóðandi í London hefði lofað að byggja 50 þúsund heimili. Borgarstjórar byggja ekki heimili. Fólk stofnar heimili. Frambjóðendur geta lofað að beita sér fyrir byggingu húsnæðis fyrir 50 þúsund fjölskyldur, eða byggingu 50 þúsund íbúða. Þeir geta ekki lofað kjósendum því að þeir muni byggja heimili.

 

 

ENN ER RUGLAÐ SAMAN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (06.05.2016) var fjallað um lífríkisskaða í Mývatni og hvernig úr mætti bæta., - engu megi til spara, var sagt. Fast er í málinu að segja- ekkert var til sparað , en á hinn bóginn segjum við að engu megi til kosta. Sífellt er verið að rugla þessu saman. Hefur nokkrum sinnum verið nefnt í Molum.   

 

MÁLIÐ

Sérstök ástæða er til að þakka Morgunblaðinu og vekja athygli á þremur línum, um móðurmálið, sem birtast daglega undir fyrirsögninni Málið á krossgátu- og Sudokusíðunni. Þetta er stutt og hnitmiðað. Það væri ekki úr vegi að móðurmálskennarar nýttu sér þetta í kennslu , - og auðvitað ættu allir sem skrifa fréttir að lesa þessar þörfu leiðbeiningar. Þakkarvert.

 

BLÓÐBLETTAÐ LAK

Hvaða tilgangi þjónaði það í fréttum Ríkissjónvarpsins (03.05.2016) að sýna okkur aftur og aftur rúm með blóðblettuðu laki á Landspítalanum?

Blóðflekkurinn í lakinu bætti engu við fréttina. Þetta var dómgreindarleysi hjá fréttastjóra að mati gamals fréttamanns.

 

FYRIR RANNSÓKN MÁLS

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.05.2016) var sagt frá tveimur mönnum, sem handteknir höfðu verið um nóttina. Síðan var sagt: Þeir voru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls. Þetta er andstætt máltilfinningu Molaskrifara og hefur oft verið nefnt hér áður.

Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband