27.4.2016 | 10:01
Molar um málfar og miðla 1936
RUGLINGUR
Í þessari frétt á mbl.is (26.04.2016) kemur fram að blaðamaðurinn, sem skrifar fréttina þekkir ekki, muninn á forsætisráðuneytinu og skrifstofu forseta Íslands. Skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins er tvisvar nefndur í fréttinni og raunar nafngreindur einu sinni, þegar spurningum er beint til forseta Íslands. Til forsetaskrifstofu. Þetta mun hafa verið leiðrétt er leið á daginn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/26/olafur_ragnar_ekki_motad_afstodu/
Þetta vekur spurningar um hvaða kröfur séu gerðar til nýliða um þekkingu á stjórnkerfinu.
SAFNAÐ FYRIR BÖRNUM
Úr frétt á mbl.is (25.04.2016): ,, Hann hafði ætlað sér að vera á sjó í fimm mánuði og safna pening fyrir börnum í neyð.
Æ oftar sér maður eintölu myndina pening í fréttum. Þetta hefur fram til þessa verið að mestu bundið við óformlegt talmál. , ,,Ég á engan pening Ég er blánkur. Hér hefði betur verið sagt: ,, Hann hafði ætlað sér að vera á sjó í fimm mánuði og safna fé fyrir börn í neyð, handa börnum í neyð.. Að safna peningum fyrir börnum, er eiginlega að safna peningum til að kaupa börn. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/25/aetladi_ad_hlaupa_til_bermuda/
ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT
Ótrúlega algengt er að þeir sem skrifa fréttir séu illa að sér um notkun viðtengingarháttar. Dæmi af hringbraut. is (24.06.2016): Prófessor: Fólk ofmeti sigurlíkur ÓRG. Er prófessorinn að hvetja fólk til að ofmeta sigurlíkur ÓRG. Nei. Hér ætti að standa: Prófessor: Fólk ofmetur sigurlíkur ÓRG . http://www.hringbraut.is/frettir/professor-folk-ofmeti-sigurlikur-org
SMÆLKI
* Í fréttum Stöðvar tvö (23.04.2016) var talað um fimm meðlimi sömu fjölskyldu. Betra hefði verið og einfaldara að segja, - fimm úr sömu fjölskyldunni.
* Í sama fréttatíma sagði fréttaritari Stöðvar um hótelbyggingu í Öræfum að þar væri engu til sparað. Ótrúlega oft er farið rangt með þetta. Venja er að segja ekkert til sparað. Hinsvegar er sagt engu til kostað.
* Enn skal vitnað til sama fréttatíma. Þar var talað um að kjósa með áframhaldandi veru í Evrópu í þjóðaratkvæðagreiðslunni .... Það er ekki kosið í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þar eru greidd atkvæði með eða móti. Reyndustu fréttamenn rugla þessu saman.
* Í fréttum Ríkissjónvarps þetta sama kvöld var sagt að fjögurra ára gamall breskur prins hefði átt fund með bandarísku forsetahjónunum, Michelle og Barack Obama! Ja, hérna.
* Í sjónvarpsdagskránni á vef á vef Ríkisútvarpsins var þessi liður á dagskrá á laugardagskvöld: Kórónan Hola - Hinrik V - Hollow Crown - Henry V. Hversvegna stór stafur í hola? Hefði ekki verið nær að tala um kórónuna innantómu?
* Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.04.2016) talaði fréttamaður um ræðismannaskrifstofu Hollands í Tyrklandi. Það heitir ræðismannsskrifstofa , ekki ræðismannaskrifstofa.
* Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 16 00 (24.04.2016) var sagt frá rútuferðum frá Keflavíkurflugvelli norður í land. Sagt var að ferðirnar hefðu viðkomu á .. og í Húnvatnssýslum. Ferðir hafa ekki viðkomu. Segja hefði mátt , - með viðkomu á ...
* Í fréttayfirliti Bylgjunnar á hádegi (25.04.2014) var talað um að knýja fram úrslit um. Knýja fram úrslit, hefði dugað. Ekkert um.
* Af forsíðu mbl.is (25.04.2016): ,,Langstærstur hluti starfsemi minnar er utan Íslands. Þetta segir Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samherja.Eitt er Samherji, annað Samskip!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.