12.4.2016 | 06:51
Molar um málfar og miðla 1925
Á STYKKISHÓLMI
,,Bifreið fór í höfnina á Stykkishólmi ... var sagt í fréttum Ríkisútvarps klukkan 15 00 á sunnudag. Þetta var lagfært seinna, en föst málvenja er að segja í Stykkishólmi. Áfram var hinsvegar aftur og aftur sagt,- þegar björgunaraðilar náðu á vettvang. Í frétt mbl.is var hinsvegar talað um björgunarmenn. Betra.
ENSK LEIKRIT?
VH skrifaði (07.04.2016) ,,Sæll Eiður.
Fyrr í vetur benti ég þér á nafn á íslensku leikriti sem var: Old Bessastaðir. Og áfram skal haldið þessari feigðarför
tungu okkar.
Og núna nýlega voru kynntar frumsýningar á tveim íslenskum leikritum annað heitir ,,Improve Iceland,, og hitt heitir ,,Made in children,,
Mér alveg fyrirmunað að skilja hvers vegna þessi leikrit heita ekki uppá íslenska tungu..
Þakka bréfið VH. Ekki botna ég heldur í þessu. Þetta mun , að minnsta kosti annað leikritið hafa verið kynnt í menningarþætti Kastljóss, Ríkisútvarpsins.
http://www.ruv.is/frett/maria-um-made-in-children
UM LEKA
Í morgunútvarpi Rásar tvö (11.04.2016) var talað um gagnalekann, Panamalekann, Tortólaskjölin ,, .... að þessi gögn láku, sagði umsjónarmaður. Gögnin láku ekki. Gögnunum var lekið. Þau voru birt án heimildar þeirra, sem geymdu þau. Hefur heyrst áður.
Seinna í þættinum var talað um tæknihlið lekans og þar voru tæknisletturnar ansi margar hjá þeim sem rætt var við, þannig að efnið fór um sumt fyrir ofan garð og neðan hjá þeim, sem þetta skrifar.- Það var hinsvegar ágætt hjá Sigmari að biðja samverkakonu sína um að útskýra slettu, sem hún notaði, svo hlustendur skildu um hvað væri verið að tala. Mætti gerast oftar. Svo var talað um að gefa út skó! Selja nýja gerð af íþróttaskóm.
SAMTAL SEM MISTÓKST
Fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (11.04.2016): Samtal við þjóðina mistókst. Þetta er tilvitnun í orð forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Samtal þar sem annar aðilinn sagði ósatt, hlaut að mistakast. Þjóðin sagði ekki ósatt.
STARFSSTJÓRN UTANÞINGSSTJÓRN
Einkennilegt að fréttamenn, sumir hverjir, skuli ekki skilja muninn á utanþingsstjórn og starfsstjórn, þegar rætt er um ríkisstjórnir. Meira að segja fréttamenn,sem eru löglærðir, virðast ekki ráða við þetta.
Utanþingsstjórn er ríkisstjórn,sem forseti skipar þegar stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi, koma sér ekki saman um myndun ríkisstjórnar. Ráðherrarnir eru þá ekki þingmenn. Þeir sitja þó á þingi , en auðvitað án atkvæðisréttar. Við höfum haft eina slíka (1942-1944). Stundum er sagt, að forsetar hafi verið tilbúnir með slíka stjórn, ef stjórnarmyndunarviðræður virtust í óleysanlegum hnút og dregist mjög á langinn,en þingmenn þá séð sitt óvænna og náð samkomulagi um stjórnarmyndun.
Starfsstjórn er ríkisstjórn, sem beðist hefur lausnar og fengið lausn frá störfum en falið er að sitja áfram uns ný stjórn hefur verið mynduð. Samkomulag virðist ríkja um að slík stjórn taki ekki meiriháttar ákvarðanir, - hennar hlutverk sé að halda kerfinu gagnandi uns ný stjórn hefur verið mynduð. Utanþingsstjórn og starfstjórn eru sitt hvað og þessu eiga fréttamenn ekki að rugla saman. Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra skýrði þetta ágætlega í pistlum sínum á dögunum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.