Molar um málfar og miðla 1922

GÆRKVÖLDIÐ Í PÓLITÍKINNI

 Molaskrifari hefur áður nefnt frábæra frammistöðu fréttastofu Ríkisútvarpsins í hinni pólitísku ringulreið undanfarna daga. Þar hafa margir lagt hönd á plóginn, lagst á eitt, og unnið vel, bæði fréttamenn og ekki síður tæknimenn. Þeirra hlut má ekki vanmeta. Gaumgæfinn og yfirvegaður Guðni Th. Jóhannesson prófessor og sagnfræðingur gaf allri þessari umfjöllun líka aukið vægi. Hann er í essinu sínu í sjónvarpi. Gerði þetta einstaklega vel.

 Í gærkveldi (06.04.2016) var eins og fréttastjórnin færi dálítið úr böndunum, - þarna var eiginlega hálfgert stjórnleysi í útsendingunni. Hvar voru fréttastjóri, dagskrárstjóri og útvarpsstjóri? Það hefði átt að hætta beinni útsendingu strax eftir ræðurnar og viðtölin í stiga þinghússins. Það kom eiginlega ekkert merkilegt fram eftir það. Svo voru tíu fréttir á dagskrá seinna um kvöldið. Raunar athyglisvert, að fjármálaráðherra, en ekki nýr forsætisráðherra skyldi byrja, ljúka og stjórna þessum stigaviðburði. Bjarni var forsætisráðherrann í stiganum.

Kastljósi var ofaukið. Það var hálf vandræðalegt. Það átti bara að halda fréttaútsendingunni úr þinghúsinu áfram strax að loknum veðurfréttum, - og hætta í stiganum þegar Bjarni og tilvonandi forsætisráðherra höfðu lokið máli sínu.

Es. það var auðvitað allt í lagi að ræða mótmælin á Austurvelli við erlenda ferðamenn, - þótt það fólk vissi lítið eða ekkert um málið. En látum það nú vera. Verra var fyrr í vikunni, þegar verið var að ræða mótmælin við smábörn, óvita. Það ætti ef til vill að varða við lög að koma þannig fram við börn. Blanda óvitum inn í pólitíska umræðu. Það var óafsakanlegur dómgreindarbrestur.

Í heildina var frammistaðan mjög góð. Takk fyrir það.

 En eftir stendur áreiðanlega í huga margra, að ríkisstjórnin glutraði þarna niður tækifæri til að lagfæra ásýnd sína og afla sér trausts hjá landsmönnum. Það tækifæri fór hjá garði. Eftir stendur sterkari Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum. Það eru vissulega tíðindi líka.

 

BRAGÐ - BRÖGÐ

Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifaði Molum (01.04.2016): ,, Ég lærði það í íslenskunámi mínu gegnum árin, að það væri bragð af mat, og það orðið væri ekki til nema í eintölu, en nú virðist færast í vöxt, að fólk tali um margskonar brögð af matnum. Það finnst mér hljóma undarlega í eyrum, enda lærði ég það, að orðið brögð í fleirtölu þýddi allt annað en bragð af mat, smb. orðatiltækið brögð í tafli. Ég ætlaði að spyrja þig, hvort þú hefðir ekki tekið eftir þessu, og hver þín skoðun er á þessu? Er hægt að tala um mörg brögð af mat? Mér finnst þetta hljóma eitthvað annkanalega í eyrum, vægast sagt.”

Þakka bréfið. Vissulega hef ég tekið eftir þessu. En mér er reyndar tamara að tala um bragð að mat, fremur en bragð af mat. Þetta er sérviska, því algengara mun að talað sé um bragð af mat. En svo segjum við bragð er að þá barnið finnur. Þá er verið að tala um eitthvað sem er svo úr hófi, að jafnvel barn geri sér grein fyrir því. Ég er sömu skoðunar og þú varðandi notkun þessa orðs í fleirtölu, rétt eins og fleirtölunotkun orðanna verð og ilmur, sem ég felli mig illa við, en þetta er sjálfsagt persónubundið eins og svo margt annað í málinu. Mjög oft nú orðið er í auglýsingum talað um góð verð og marga ilmi - gott verð og margskonar angan.

 

HALLAR UNDAN FÆTI

,,Þá fer nú að halla undan fæti hjá okkur hér í Samfélaginu”, sagði stjórnandi þáttarins Samfélagið á Rás í Ríkisútvarpinu á þriðjudag (05.04.2016). Hann átti ekki við, að þátturinn væri að geispa golunni, eða að þetta væru farið að þynnast hjá þeim. Hann átti við að sá tími, sem þættinum væri ætlaður í dagskránni væri að renna út, þættinum væri að ljúka. Alltaf betra að vita hvað orðtök þýða, þegar gripið er til þeirra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband