14.3.2016 | 10:18
Molar um málfar og miðla 1907
Í NÓTT
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag (12.03.2016) var sagt , að aflýsa hefði þurft kosningafundi Donalds Trumps í Chicago í nótt. Fundinn átti ekki að halda í nótt heldur í gærkvöldi. Þetta var rétt í yfirliti í lok frétta. Þar var sagt, að fundinn hefði átt að halda í gærkvöldi. Molavin vék að þessari tilhneigingu fjölmiðla að færa alla viðburði erlendis yfir á íslenskan tíma í bréfi til Molanna fyrir helgi (Molar 1906). Hvernig væri að fréttastofan setti sér þá vinnureglu að nota staðartíma, þegar greint frá atburðum erlendis? Það er einföld regla.
VERÐLAUNUM LANDAÐ
Í þessari frétt (10.03.2016) talar ferðamálaráðherra ráðherra um að verðlaunum hafi verið landað. Íslenskar kvikmyndir unnu til verðlauna. Sennilega er ráðherrann hér að apa eftir íþróttafréttamönnum, sem stundum tala um að landa sigri. Ekki er það til fyrirmyndar,
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/10/kvikmyndaendurgreidsla_haekkar_i_25_prosent/
ÚRSKURÐUR, EKKI DÓMUR
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (10.03.2016):,, Hæstiréttur dæmdi í dag að háskólastúdent, sem stakk félaga sinn með hnífi aðfarnótt sunnudags, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 6. apríl og sneri þar með við úrskurði héraðsdóms í gær. Þetta var einnig sagt í fréttum útvarps klukkan 17 00 og í fréttum Ríkissjónvarps klukkan 1900.
Hæstiréttur var ekki að dæma; ekki að kveða upp dóm. Hæstiréttur var að úrskurða. Staðfesta varðhaldsbeiðni lögreglunnar. Er þetta ekki almenn lögfræði 101? Þetta heyrist því miður aftur og aftur í fréttum Ríkisútvarps og fleiri fjölmiðla.
http://www.ruv.is/frett/aftur-urskurdadur-i-gaesluvardhald
SAKAÐI EKKI
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (10.03.2016) var sagt frá þremur ferðamönnum, sem villtust í vondu veðri á leið í sumarbústað í Miðfellslandi við Þingvallavatn.Svo var sagt: ,,Lögreglumenn komu þeim í réttan bústað án þess að þær sökuðu. Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja í lok setningarinnar: ,, .... án þess að þær sakaði.
MENNINGARFRAMLAG MBL.IS
Menningarframlag mbl.is í íslensku fjölmiðlaflórunni er svokallað Smartland Mörtu Mörtu Maríu.
http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2016/03/10/homlulausir_slendingar_a_deit_sidum/
VONDUR GRAUTUR
Stundum hefur verið vikið að því hér í Molum hvernig til dæmis Stöð tvö hrærir saman íslensku og ensku í þáttaheitum, Ísland Got Talent er dæmi um slíkan hrærigraut. Jón Gnarr sjónvarpsstjóri kallar vikulegan þátt sinn á Stöð tvö Ísland Today. Ísland í dag er sennilega ekki nógu fínt. Þessu grautargerð er smitandi. Í sunnudagsmogga (13.03..2016) er sagt frá nýjum leikhópi. Og hvað skyldi hann heita? Improv Ísland! Dettur fólki ekkert betra í hug?
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.