11.3.2016 | 13:31
Molar um málfar og miðla 1906
UM TÍMA OG FRAMBURÐ
Molavin skrifaði (09.03.2016): ,, Forkosningar fóru ekki fram í nokkrum ríkjum vestanhafs í NÓTT eins og sagt var í fréttaskýringu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, miðvikudag 9. mars. Það var kosið í gær og kosningum lauk árla kvölds þótt komin væri nótt í Reykjavík, þegar úrslit lágu fyrir. Þegar sagðar eru erlendar fréttir er rétt að halda sig við tímann á söguslóð; ekki hvað klukkan var í Reykjavík. Þá er því við að bæta að Michigan er ekki borið fram Mitsígan á ensku eins og þráfaldlega var lesið í fréttinni. Það er ekkert "t" í heiti ríkisins. - Kærar þakkir, Molavin. Gott er að eiga glögga að.
FALLAVILLA
Glöggur lesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi á mbl.is (09.03.2016):,, Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur til styrktar þeirra þriggja sem misstu allt í brunanum á Grettisgötu fyrr í vikunni. Hér hefði átt að standa:,, ... til styrktar þeim þremur ... Er þetta einhver þágufallshræðsla? Molaskrifari þakkar ábendinguna.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/09/hjalpa_theim_sem_misstu_allt/
FJÖGUR GÖGN
Af mbl.is (09.03.2016):,, Fjögur íslensk gögn voru í gær samþykkt formlega inn á landsskrá Íslands um Minni heimsins. Hér hefði eftir málvitund Molaskrifa átt að tala um fern íslensk gögn. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/09/efla_skilning_a_mikilvaegum_heimildum/
SÆNSKT LAUGARDAGSKVÖLD Í EFSTALEITI
Annað kvöld (11.03.2016) ætlar Ríkissjónvarpið á besta tíma, lungann úr kvöldinu ,að bjóða þjóðinni á söngvakeppni sænska sjónvarpsins í rúmlega tvo klukkutíma! Já, söngvakeppni sænska sjónvarpsins. Þetta efni mætti sem best sýna á sunnudagsmorgni til að gera þeim til góða sem standa á öndinni og bíða málþola eftir verksmiðjuframleiddri popptónlist.
TILTÖLULEGA NÝR AF NÁLINNI
Ekki er allt mjög nákvæmt sem skrifað er í fylgiblaði Fréttablaðsins um bíla. Þar er til dæmis (08.03.2016) sagt um Volvo XC 90 :,, Þó að Volvo XC 90 jeppinn sé tiltölulega nýr af nálinni ... Molaskrifari á Volvo XC90. Sá bíll var skráður í Færeyjum snemma árs 2008 og er því orðinn átta ára. Það þykir víst gamall bíll á Íslandi. Var skráður á Íslandi 19. janúar 2009.
Hann er í góðu standi, en ekki er hann nýr af nálinni. Þessir bílar hafa verið framleiddir lengi, eða allt frá 2002, feikilega vinsælir, en fyrir skömmu kom ný útgáfa á markað. Önnur kynslóð, segja þeir. Hið sígilda útlit er lítið breytt, en ýmsar tækninýjungar hafa gert bílinn enn betri.
STÓRT VEGGFÓÐUR
Í fréttum Ríkissjónvarps (08.03.2016) var fjallað um merkilega sýningu á verkum Jóhannesar S. Kjarvals á Kjarvalsstöðum. Sagt var að á sýningunni væri stórt veggfóður. Ekki þótt Molaskrifara það tiltakanlega vel orðað. Ekki hefði verið óeðlilegra að tala til dæmis um x fermetra veggfóður af veggjum vinnustofu Kjarvals í Austurstræti.
SPURNINGAÞÆTTIR
Þeir spurningaþættir, sem Ríkissjónvarpið býður okkur í vetur eru orðnir dálítið trénaðir. Mikið væri gaman, ef hægt væri að endurvekja menningarlegan spurningaþátt um tónlist, eitthvað í líkingu við Kontrapunkt, sem naut mikilla vinsælda hér á árum áður.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.