Molar um málfar og miðla 1903

SLÆM HELGI HJÁ NETMOGGA

Molavin skrifaði: ,,Svona er nú komið fyrir Morgunblaðinu (amk. netútgáfu þess). Í frétt í dag, 6.mars, segir orðrétt:

"Þrítug kona var brennd til bana á föstu­dag­inn af bræðrum sín­um..." og síðar: "Þeir fram­kvæmdu einnig jarðarför­ina sama kvöld...“ Les enginn yfir?” Nei, ágæti Molavin. Yfirlestur heyrir sennilega sögunni til á þessum bæ. Þetta var óvenju slæm helgi hjá Netmogga. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/06/kveiktu_i_systur_sinni_uti_a_gotu/

 

 SIGRAÐI KEPPNINA

Á laugardagskvöld (05.03.2016) sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps okkur frá ungri stúlku sem sigrað hefði söngkeppni Samfés. Sigraði keppnina! Bar hún ekki sigur úr býtum? Heyrði fréttastjóri þetta ekki? Eða vissi fréttastjóri ekki betur? Molaskrifari var að vona að Ríkissjónvarpið væri vaxið upp úr því að láta okkur hlusta á svona ambögur.. Orðrétt af vef Ríkisútvarpsins:,, Sara Renee Griffin úr félagsmiðstöðinni Rauðagerði í Vestamannaeyjum sigraði Söngkeppni Samfés í dag.” Og keppnin steinlá!

 

SLÆGUR AF ÖKUMÖNNUM

Úr frétt á mbl.is um bíl sem festist í skafli á miðri brú(06.03.2016): ,,Sagði hann full­ljóst að yfir brúnna kæm­ist eng­inn án þess að vera á breytt­um jeppa og að nokk­ur slæg­ur af öku­mönn­um sem bíða þess að kom­ast yfir brúnna gætu átt erfitt með verkið.”

Hvað er nokkur slægur af ökumönnum? Bara bull. Slægur (kk) er eitthvað sem er eftirsóknarvert, eitthvað sem fengur er að. Það væri slægur í því fyrir mbl.is að fá betur skrifandi fólk til starfa. Í fréttinni er tvisvar talað um brúnna. Það er sem sé ekki innsláttarvilla, heldur kunnáttuskortur, - skortur á málfræðikunnáttu. Fleiri athugasemdir gætu átt rétt á sér. Fréttabarnavakt á sunnudagsmorgni?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/06/fastur_i_skafli_a_midri_bru/

Nokkrir vinir Molanna sendu línu og bentu á þessa frétt. Margir tóku eftir þessu.

 

 

STÓRT FYLGI

Í fréttum Stöðvar tvö (05.03.2016) sagði talsmaður Pírata okkur að fylgi flokksins hefði stækkað. Hann átti við að fylgið hefði vaxið, - fylgið hefði aukist.

 

LÍFSÓGNANDI

Á forsíðu Fréttablaðsins (05.03.2016) var sagt um krabbamein í blöðruhálskirtli: Einungis 20% eru lífsógnandi. Hér er sennilega hugsað á ensku, lífsógnandi , e. life threatening. Orðið var einnig notað á bls.33 í Fréttablaðinu sama dag. Við eigum ágætt orð sem er: Lífshættulegt. Svo eru líka til í málinu orðin banvænn, lífshættulegur, sem veldur dauða.

 

FJÖLDI - FJÖLGUN

Í fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (05.03.2016) sagði fréttamaður:,, Talsmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna varaði við því á dögunum, að opnuðu Makedóníumenn ekki landamæri sín mundi fjöldi flóttamanna við landamærin Grikklandsmegin fjölga í sjötíu þúsund á næstu vikum.” Fjöldi fjölgar ekki. Fjölda fjölgar ekki. Er enginn á fréttastofu Ríkisútvarpsins,sem gerir sér grein fyrir því að vanda þarf betur til verka. Lesa þarf handrit, leiðrétta og lagfæra, sé þess þörf, áður en lesið er fyrir okkur. Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Er verkstjórnin í molum, þegar að fréttunum kemur? http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/kvoldfrettir/20160305 - Þetta var reyndar endurtekið orðrétt í fréttum á miðnætti. Hlustar enginn í Efstaleitinu á fréttir í útvarpinu?

 

SKONDIIÐ

Það var dálítið skondið í þættinum Gettu betur á föstudagskvöldið (04.03.2016) að heyra spyril tala um danska vikublaðið Familie journal upp á ensku ( eftir frb. familí dsjörnal!). Fyrir svona sex, sjö áratugum voru dönsku vikublöðin Hjemmet , Alt for damerne og Familie journal gríðarlega vinsælt lesefni á Íslandi. Blöð voru tekin frá í bókabúðum fyrir fasta viðskiptavini, sem biðu komu blaðanna með öndina í hálsinum. Nú kunna víst fáir lengur dönsku. Réttur framburður vafðist fyrir spyrli á föstudagskvöldið.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband