Molar um málfar og miðla 1856

 

KRYFJA – KRUFÐI

Molavin skrifaði (28.12.2015): ,,Venjulega lítur maður til fréttastofu Ríkisútvarpsins sem fyrirmyndar um meðferð móðurmálsins. Enda eru fréttir þar venjulega á góðu máli. En mistök geta orðið og þá vantar þar eftirlit. Í frétt (28.12.2015) um síld í Kolgrafarfirði sagði: "þegar ábúendur á Eiði við Kolgrafafjörð krufu skarf..." Þetta fór óbreytt inn á vefsíðu RUV og er þar enn. Hér á vitaskuld að standa "krufðu." Kannski er þetta innsláttarvilla, en þá ætti þulur að sjá og vaktstjóri að lesa. Eftirliti og yfirlestri er ábótavant og það setur blett á góða stofnun.”

 

HAFÐI SNÉRIST

Úr frétt umferðarslys á mbl.is (27.1.2.2015): ,, “Í gær var greint frá því á mbl.is að bíla­leigu­bíll hafi snér­ist og runnið á 40-50 km hraða fram af þver­hnípi, farið nokkr­ar velt­ur og hafnað í fjöru”. Bíllinn hafði snúist. Sjá:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/27/annad_slys_a_nanast_sama_stad/

 

AUKAFRÉTTIR

Gott framtak hjá fréttastofu Ríkisútvarps að vera með aukafréttatíma (30.12.2015) klukkan tólf  eftir fárviðrið eystra. Málum gerð ágæt skil. Í kynningu var talað um ,,að blása til aukafréttíma”! Tæpum klukkutíma seinna var framið bankarán í Reykjavík. Svona er fréttamennskan!

 

SÓKN ENSKUNNAR

Molaskrifari lýsir ábyrgð á hendur auglýsingastofum, kaupahéðnum og stórverslunum fyrir að innleiða og endurtaka í síbylju ensk orð eins og Tax free, sem hefur ekkert með skatt að gera, er bara auglýsing um afslátt. Svo hafa bæst við orð eins og Black Friday og Cyber Monday, beint úr amerísku auglýsingamáli. Á Þorláksmessu heyrði skrifari talsmann verslunarinnar nota þessi ensku orð í útvarpsviðtali, - rétt eins og þau væru góð og gild íslenska. Við þurfum að skera upp herör gegn þessum slettum.

Bretar kalla annan í jólum Boxing day. Þá eru miklar útsölur. Verður það ekki næst hjá hérlendum kaupahéðnum og auglýsingastofum að apa það eftir? Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/12/26/kaupodir-bretar-felldu-hundrad-ara-solumet-boxing-day/

 

HERTASTA LÖGGJÖFIN

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (29.12.2015) var talað um breytingar á innflytjendalöggjöf í Noregi, sem verði ,,sú allra hertasta í Evrópu.”Væntanlega var átt við að löggjöfin yrði sú allra strangasta í Evrópu. Eins og Bogi sagði réttilega í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (29.12.2015)

 

MET?

Í fimm fréttum Ríkisútvarpsins 29. desember var beðist afsökunar á ranghermi í frétt, sem flutt hafði verið 28. október. Betra er seint en aldrei. En er þetta ekki einhverskonar met?

 

ÓFÆRÐ

Ný spennuþáttaröð Ríkissjónvarpsins lofar heldur góðu, eftir fyrsta þáttinn (27.12.2015). Fagfólk að verki.

 

 Ágætu Molalesendur, - þetta er síðustu Molar ársins 2015.

Óska ykkur árs og friðar og þakka samskiptin á liðnu ári, - þakka öll bréfin, símtölin og gagnlegar ábendingar. Gott er að eiga ykkur að. Megi nýtt ár færa ykkur góða heilsu og hamingju hugans. Lifið heil! 

Eiður Svanberg Guðnason

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sæll og þðkk fyrir að standa þína mikilvægu vakt.

Fyrir okkur sem því miður þurfum oftast að vera með umvandanir varðandi meðferð móðurmálsins, var það léttir fyrir mig að geta lýst í bloggpistli yfir ánægju með aukafréttatímann og þó einkum afburða fagmennsku og frammistöðu Brodda Broddasonar.

Ómar Ragnarsson, 31.12.2015 kl. 02:09

2 identicon

Kæri Eiður

Alltaf er ánægjuleft að lesa athugasemdir .ínar um málfar. Ég les MBL.IS á hverjum morgni og hnýt oft um Geirsbókarvillur, en það kalla ég orðréttar þýðingar úr erlendu máli. Er þá ákveðinn greinir ætíð þýddur sem hinn, hin eða hið.

Í morgun rakst ég orð, sem ég hef aldrei séð fyrr áhlaðandi. Var þetta í veðurlýsingu.

Sagt var um mann, sem festi fótinn í vél að hann hefði fest fót sinn. Næst má búast við frétt um mann, sem var sleginn í höfuð sitt.

Sagt var í frétt um óveður að byrjað yrði að leggja mat á tjón í stað þess að segja að byrjað yrði að meta tjón.

Varðandi síðbúna leiðréttingu á frétt, þá New York Times líkllega metið. Blaðið leggur metnað sinn í að leiðrétta villur. Rúmlega fjörutíu ára gömul dánartilkynning var leiðrétt fyrir nokkrum árum.Villan var ekki sök blaðsins,útfarastofan átti sökina en blaðið vill alltaf hafa það, sém réttara er.

Geir Magnusson (IP-tala skráð) 31.12.2015 kl. 08:15

3 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

    Þakka ykkur góðar ábendingar, Ómar  og Geir. Gleðilegt ár.

Eiður Svanberg Guðnason, 31.12.2015 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband