Molar um málfar og miðla 1855

 

FÓLKIÐ VAR HALDIÐ

Úr frétt á mbl.is (24.12.2015): ,,Fólkið, sem var haldið af her­ská­um ír­önsk­um stúd­enta­sam­tök­um í 440 daga, fá allt að 4,4 millj­ón Banda­ríkja­dala hvert eða 10.000 dali fyr­ir hvern dag”. Seint verður sagt að þetta sé vel skrifað. Á mannamáli þýðir þetta: Fólkið var í haldi herskárra, íranskra stúdentasamtaka í 440 daga. Gíslarnir fá allt að 4,4 milljónir Bandaríkjadala hver, eða 10.000 dali fyrir hvern dag, sem þeim var haldið í gíslingu.

 Orðið fólk vafðist líka fyrir fólki í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (25.12.2015). Í frétt um annríki hjá sjúkraflutningamönnum á höfuðborgarsvæðinu. Þar var sagt: ,, Þá aka þeir fólki, sem dvelur á sjúkrastofnunum til ættingja sinna. þar sem þeir (þau?) njóta hátíðarinnar ...” Þar sem það ... , eða þar sem fólkið ...

 

STRANDARKIRKJA

Nýlega sá Molaskrifari í fyrirsögn (man ekki hvar) talað um Strandakirkju. Átt var við Strandarkirkju, sem er kirkja Strandarsóknar í Selvogi Sjá: http://kirkjan.is/soknir/TK2 Þetta er mjög algengur ruglingur.

Strandarkirkja í Selvogi þykir góð til áheita og á árum áður birtist öðru hverju á dagbókarsíðu Morgunblaðsins listi yfir þá sem heitið höfðu á kirkjuna. Í þessari ágætu grein eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur er frekari fróðleik að finna um þetta sögufræga og merkilega guðshús: http://kirkjan.is/strandarkirkja/fro%C3%B0leikur/strandarkirkja-aheitasta%C3%B0ur-i-nor%C3%B0ri/

 

ENN UM SLETTUR

Ríkisútvarpið á ekki að velja aðra þáttastjórnarendur, umsjónarmenn, en þá sem geta talað lýtalausa íslensku. Yfirleit tekst vel til um val  umsjónarmanna. Undantekningar eru þó þar frá, sem vikið hefur verið að hér á þessum vettvangi áður. Ekki síst á það við um morgunútvarp Rásar tvö þar sem enskuslettur  eru  algengar. Að morgni aðfangadags (24.12.2015) var talað um að vinna aðeins lengra með þetta konsept. Ekki til fyrirmyndar.

 

 

 

OG ÞÚ LÍKA .....

Svo bregðast krosstré sem önnur tré, er stundum sagt. Nú er meira að segja Morgunblaðið, mbl.is (24.12.2015) farið að versla jólagjafir, í stað þess að kaupa jólagjafir.,, Tölu­vert hef­ur verið að gera í Kringl­unni frá því að þar opnaði í morg­un en löng röð myndaðist við þjón­ustu­borðið klukk­an tíu og greini­lega marg­ir sem þurfa að versla jóla­gjaf­irn­ar á síðustu stundu þetta árið -  Morgunblaðið á að geta gert betur en þetta. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/24/margir_a_sidustu_stundu/

 

ENN UM SNJÓSTORM

Óþarfi er að nota orðið snjóstorm um stórhríð eða byl. Við eigum gnótt góðra orða um slíkt veðurlag. Samt sést þetta orð aftur og aftur í fréttum. Síðast á vef Ríkisútvarpsins (25.12.2015) : ,,Á vef TV segir að eftir kalda byrjun á vetrinum með snjóstormi og djúpri lægð í byrjun desember hylji snjór nú stærstan hluta Íslands”. Í morgunfréttum á jóladag klukkan tíu var talað um snjóstorm, en réttilega um hríðarbyl í hádegisfréttum. http://www.ruv.is/frett/bara-hvit-jol-i-reykjavik

Í fréttum Bylgjunnar á hádegi á sunnudag (27.12.2015) var talað um, að von væri á ,,sögulegum snjóstormi “ í Texas”. Það var og.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband