19.10.2015 | 10:08
Molar um málfar og miðla 1816
HELMINGUR SAGT UPP
,,Helmingur hjá Elko í Leifsstöð sagt upp vegna meints hroka verslunarstjóra. Þetta er óskiljanleg fyrirsögn af dv.is (16.10.2015). Þegar fréttin er lesin, kemur í ljós að helmingur starfsfólks Elkó hefur sagt upp störfum. Það kemur ekki fram í fyrirsögninni. Fyrirsagnir eiga að vera skiljalegar. Þær eiga að vera um kjarna fréttar.
Um þetta og reyndar fleira sendi Sigurður Sigurðarson Molum eftirfarandi: Helmingur hjá Elko í Leifsstöð sagt upp vegna meints hroka verslunarstjóra. Svo segir í fyrirsögn í DV, nánar hér.
Lesandinn gerir auðvitað ráð fyrir að helmingi starfsmanna hafi verið sagt upp störfum, enda segir svo í fyrirsögninni. Það er hins vegar ekki svo enda er fyrsta málsgreinin í fréttinni þessi: Helmingur starfsmanna raftækjaverslunarinnar Elko hefur sagt upp störfum hjá versluninni á Leifsstöð samkvæmt heimildum DV. Er annars ekki réttara að segja í versluninni?
Svona óklár er blaðamaðurinn sem fréttina skrifar. Hann leggur að jöfnu orðfærið að starfsmanni sé sagt upp og að starfsmenn segja upp. Í fyrra tilvikinu er verið að reka fólk úr starfi og í því seinna er starfsfólkið að hætta að eigin ósk. Á þessu tvennu er stór munur. Rétt fyrirsögn hefði verið svona: Helmingur hjá Elko í Leifsstöð segir upp
Eru engar kröfur gerðar til blaðamanna lengur? Hvað með prófarkalestur?
Undanfarnar vikur hefur árásum fjölgað mikið. Í þessum mánuði hefur Ísraelsmaður særst lífshættulega nær daglega í hnífstunguárás. Sjá á mbl.is.
Þvílíkur kjáni þessi Ísraelsmaður. Hann ætti að halda sig innandyra annars gæti farið verulega illa.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór eftirför eftir ökumanni í nótt, sem grunaður var um ölvunarakstur.
mbl.is 27.9.2015 Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.
Þarna er vissulega ýmislegt að.
GÓÐ MÆTING
Ekki heyrði Molaskrifari betur í tíufréttum Ríkisútvarps (15.10.2015) en fréttamaður talaði um talsvert góða mætingu, eða eitthvað í þá veruna, um mótmæli launafólks á Austurvelli. Það er ekki hlutverk fréttamanna að meta fyrir okkur hvort mæting á tiltekinn viðburð sé góð eða léleg.
GRAFINN KÖTTUR
Þorvaldur skrifaði (18.10.2015): ,,Í sunnudagsmogganum (18.10.2015)er grein um ,,læsileika" skýrslna um umhverfismál. Þar er talað um vandamálið við að semja skiljanlegan texta og komist að nokkurri niðurstöðu, klykkt út með að segja ,,og þar liggur kötturinn grafinn". Viðkomandi fréttabarn hefur líklega ekki verið alveg með á köttinn eins og stundum var sagt. Þakka bréfið, Þorvaldur.
EFTIRFYLGNI
Umfjöllun Kastljóss um sjóslys, - þar sem gúmbjörgunarbátur sökk með skipi losnaði ekki og flaut upp, eins og hann átti að gera, var ágætlega fylgt eftir í Kastljósi á miðvikudagskvöld. (15.10.l2015). Molaskrifara þótti forstjóri Samgöngustofu að vísu nokkuð langorður, en þetta er sannarlega ekki einfalt mál.
Nokkrum dögum áður hafði Molaskrifari sent fréttamanni Kastljóss í tölvupósti nöfn á þremur bátum sem fórust og gúmbjörgunarbátar losnuðu ekki. Sex sjómenn drukknuðu. Ekki þótti ástæða til að svara þeim tölvupósti. Molaskrifara var kennt að það væri kurteisi að svara bréfum. Kannski er það bara framhleypni og slettirekuskapur að senda svona ábendingar til opinberra starfsmanna í Efstaleiti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.