Molar um málfar og miðla 1805

 

UPPNEFNI

 Fremur er sjaldgæft að sjá eða heyra fólk uppnefnt í fjölmiðlum.

 Í viðtali á visir.is (25.09.2015) talaði útvarpsstjóri Útvarps Sögu, Arnþrúður Karlsdóttir um Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kastljóss, og sagði: ,,Ekki mátti minnast á það hjá Þóru litlu Arnórs þegar hún var að fjalla um upphaf lögreglukvenna...”. Þetta segir heilmikið um útvarpsstjóra Útvarps Sögu, en nákvæmlega ekkert um Þóru Arnórsdóttur. Ekki stækkar þetta útvarpsstjórann.  http://www.visir.is/vill-banna-utvarpi-sogu-ad-nota-kennistefin/article/2015150929126

 

 ÓTÆKT FYRIRKOMULAG

Þegar dagskrá Ríkissjónvarps fer verulega úr skorðum eins og gerðist sl. föstudagskvöld (25.09.2015) kemur vel í ljós hversu ótækt og óboðlegt það er, að Ríkissjónvarpið skuli enn leyfa sér að vera með niðursoðnar dagskrárkynningar. Ógerlegt er að bregðast við óvæntum breytingum. Prýðilegur og þarfur þáttur um einelti var lengri en gert var ráð fyrir. Við því var ekki brugðist með því að tilkynna seinkun í dagskránni.- Það heyrir annars orðið til undantekninga að seinni fréttir sjónvarpsins hefjist nákvæmlega á réttum tíma. Það er subbuskapur, sem aðrar sjónvarpsstöðvar leyfa sér ekki.

 

 KÚPA

Kannski er ekki til stafsetningarorðabók á Fréttastofu Stöðvar tvö. Á laugardagskvöld (26.09.2015) var fjallað um Kúbu. Í neðanmálstexta var landið kallað Kúpa og hvað eftir annað talað um kúpversku þjóðina. Enginn les yfir.

 

 ENN UM STOKKINN

Í þessum sama fréttatíma Stöðvar tvö var talað um sjö konur sem ætluðu að stíga á stokk í ráðhúsi Reykjavíkurborgar. Konurnar  voru ekki að stíga á stokk og strengja heit. Bara bull. Þær fluttu ræður á málþingi í ráðhúsinu.

 

MEIRA UM STAÐSETNINGU

Nokkrum sinnum hefur hér verið fjall um orðið staðsettur. Þetta er af mbl.is (28.09.2015): ,,Fyr­ir 10 árum byrjaði eldri dótt­ir Önnu í Lang­holts­skóla var starf­semi frí­stunda­heim­il­is­ins færð úr kjall­ara Lang­holts­skóla í nú­ver­andi staðsetn­ingu.”

Starfsemin var færð á núverandi stað, varð færð þangað sem hún er núna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/26/vard_fyrir_bil_a_leidinni_heim/

 

AÐ HALA INN

Af mbl.is (28.09.2015): ,,Kvik­mynd­in Ev­erest stefn­ir í að verða sú er­lenda mynd Baltas­ars Kor­máks sem mest­um tekj­um hef­ur halað inn.” Þetta samrýmist ekki máltilfinningu Molaskrifara. Hann hefði fremur sagt: ,, ... sem mestar tekjur hefur halað inn”. http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/09/28/everest_stefnir_a_toppinn/

 

AF HEIMASÍÐU FORSETANS

Margt merkilegt og eftirtektarvert má lesa á heimasíðu forsetaembættisins. Forseti hefur til dæmis haldið sérstakan fund með  stjórnendum  Kaupfélagsins á Króknum http://www.forseti.is/Frettir/Ollfrettin/stjornendurkaupfelagsskagfirdinga/   Víða liggja þræðir.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já,satt segirðu, og get tekið undir allt það, sem þú segir þarna. Það er óskaplegt, þegar verið er að uppnefna fólk svona. Ég lenti einu sinni í þessu varðandi verkalýðsforingjann, föður minn, sem gárungarnir kölluðu alltaf Jón dreka, meðan hann starfaði sem erindreki ASÍ, en heldurðu, að Ingólfur Gíslason hafi ekki tekið þetta einu sinni upp í sögu eins verkalýðsfélags, sem hann var að skrifa(ég man bara ekki, hvaða félag það var), en þar skrifaði hann á einum stað, að Jón dreki Sigurðsson hefði komið á fundinn og hjálpað til við stofnun þess! Ég kom mótmælum mínum fram við þáverandi forseta ASÍ og sagði þetta óverjandi skrif. Hann var sammála mér í því efni.

 Annars var ég að hlusta á Mannlega þáttinn í útvarpinu áðan, þar sem Guðrún Gunnarsdóttir var að tala við tvær konur, sem stóðu fyrir einhvers konar ráðstefnu um heilsu og heilsueflingu. Þegar hún hafði talað við þá konuna, sem átti upptökin að ráðstefnunni, þá beindi hún orðum sínum til hinnar konunnar, og spurði, hver hennar hlutur væri þar. Konan útskýrði það og sagðist síðan hafa verið að koma af námskeiði á Ítalíu, sem hún sagði vera "svona professional master". Þá varð mér að orði: "Geturðu ekki talað íslensku?" - Guðrún minnti hana svo á, að hún hefði verið ráðgjafi hjá Heilsuhúsinu um hríð. Ekki tók betra við, þegar konan svaraði þessu, því að þegar hún hafði játað því, þá sagði hún: "Það þurfti líka að næra ýmsar vörur þar." "Hvað segirðu? Er hægt að næra vörur? Hvernig er nú farið að því? Ég skil þetta ekki. Hvað er manneskjan eiginlega að reyna að segja?" - Nú er ég ekki nógu sterk í enskunni til þess vita, hvort hún hefur hugsað þetta á ensku, og þetta orðið útkoman. Ég veit, að skjalaþýðandinn getur áttað sig betur á því, en hvernig sem þessi setning væri á ensku, þá leyfi ég mér að efast um, að nokkur Englendingur hefði talað um að "næra vörur". Ertu ekki sammála?

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2015 kl. 12:33

2 identicon

 Ég gleymdi að geta þess, að það var ég, sem var að svara útvarpinu og spyrja, hvað hún væri eiginlega að meina, svo að það komi skýrt fram.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2015 kl. 12:39

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er það ekki hrós um baráttumann fyrir verkafólk að kalla hann dreka?

Og ætli Þóra, sem er í stærra lagi, sé ekki bara ánægð með að vera kölluð lítil?

Jón Valur Jensson, 30.9.2015 kl. 16:45

4 identicon

Þetta er nú meira bullið í Jóni Val og honum líkt. Eða þykist hann vera að spauga? Léleg fyndni, verð ég þá að segja.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 2.10.2015 kl. 06:24

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ekki ætlaði ég að móðga þá ágætu konu Guðbjörgu Snót, þetta voru orð í gamni sögð.

Jón Valur Jensson, 2.10.2015 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband