Molar um málfar og miðla 1802

Í KRÖGGUM

Fyrirsögn af visir.is (23.09.2015): Hjón í fjárhagslegum erfiðleikum unnu 15 milljónir. Þarna kom vinningur greinilega á réttan stað. En skyldi sá sem fréttina skrifaði aldrei hafa heyrt orðtakið að vera í í kröggum, - skorta fé, vera lítt fjáður, eiga við fjárhagsvanda að etja? Hjónin voru í kröggum. Kröggur eru (fjárhags)vandræði, segir orðabókin.

http://www.visir.is/hjon-i-fjarhagslegum-erfidleikum-unnu-15-milljonir/article/2015150929474

 

VANDI FYLGIR ....

Réttilega er sagt, að vandi fylgi vegsemd hverri. Það fylgir því ábyrgð að vera ritstjóri, fréttastjóri, vaktstjóri hvort sem er á dagblaði í ljósvakamiðli eða netmiðli.

Ævinlega eru mannaskipti og nýliðar, lítt þjálfað eða óþjálfað fólk kemur til starfa. Molaskrifari hefur það á tilfinningunni að nýliðar á fjölmiðlum fái ekki þá leiðsögn, leiðbeiningu, þjálfun og uppörvun sem nauðsynleg er. Það er ein af ástæðum þess að við sjáum svo mikið og heyrum svo mikið af málvillum og ambögum. Úr þessu þarf að bæta. Svo þarf heldur ekki að greiða nýliðum jafn há laun og  reyndu fólki.

 

AUKA -R-

Hér hefur stundum verið að því vikið að bókstafurinn -r- á það til að skjóta sér inn í samsett orð þar sem hann á ekki heima. Í fréttum Ríkissjónvarps (23.09.2015) um lokun bankaútibúa á Vestfjörðum var talað um aðgerðaráætlun. Þarna var ekki verið að tala um eina aðgerð, heldur margar aðgerðir. Þess vegna hefði þetta átt að vera aðgerðaáætlun. Í fréttinni var talað enn einu sinni talað um útibú sem lokaði. Þannig hefur oft verið tekið til orða í fréttum um lokun útibúa Landsbankans fyrir vestan. – Í sömu frétt var sagt: ,,Sýslumannsembætti voru nýlega sameinuð úr fjórum í eitt”. Þetta hljómar ekki vel í eyrum Molaskrifara. Fjögur sýslumannsembætti voru nýlega sameinuð. Sýslumannsembættum var fækkað úr fjórum í eitt, - hefði varla verið nægilega nákvæmt orðalag.

 

 

AÐ OG AF

Æ oftar ruglar fólk saman forsetningunum að og af. Þetta er úr ræðu borgarfulltrúa, sem birt var á pressan.is (23.09.2015): Sú gagnrýni yrði af engu höfð ef ég gerði sjálfan mig og einhverja félaga mína undanskilda frá slíkri gagnrýni....  Hér hefði átt að standa, - engu höfð, - ekki tekið tillit til hennar ekki hlustað á hana. sömuleiðis hefði farið betur á því að segja,- til dæmis - ef ég hlífði mér og einhverjum félögum mínum við slíkri gagnrýni.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband