Molar um málfar og miðla 1799

 

FLJÓTFÆRNI

Sigurður Sigurðarson skrifaði (19.09.2015):

Sæll,

Hér eru örfá dæmi um fljótfærnislegar villur í fjölmiðlum. Þarfnast varla skýringa:

 

Ferðalangur fær sér kaffibolla og nýtur útsýnisins yfir Havana. Airbnb hefur slegið í gegn þar í borg og skapar heimamönnum verðmætar aukatekjur.

Myndatexti í Morgunblaðinu 30. ágúst 2015, bls. 21. Eru til verðlitlar aukatekjur? Betra að tala um litlar eða miklar aukatekjur.

 

Í ein­hverj­um til­vik­um var unnið eigna­tjón, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um lög­regl­unn­ar á Suður­landi.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/14/brotist_inn_i_atta_sumarbustadi/

 

Starfs­menn verk­taka voru að von­um ánægðir þegar ljóst var að gat hafði opn­ast í gegn.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/17/slegid_i_gegn_i_nordfjardargongum/

 

Nægi­legs fés hef­ur verið safnað til að kaupa Concor­de-þotu …

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2015/09/19/concorde_i_loftid_2019/.

 

Framið hafði verið morð á kærasta hennar 

Viðtal við ónefndan rithöfund á Rás 1 í Ríkisútvarpinu rétt fyrir kl. 11 þann 19. júní 2015.

Kærar þakkir, fyrir bréfið, Sigurður.

 

ENN ER FRÉTTUM OG KASTLJÓSI KASTAÐ ÚT

Samkvæmt auglýstri dagskrá Ríkissjónvarps í kvöld (22.09.2015) er fréttum og Kastljósi enn einu sinni hent út af dagskrá vegna íþrótta. Fréttastjóri ræður greinilega engu. Aftur og aftur er valtað yfir fréttastofuna. Íþróttastjóri ræður öllu. Útvarpsstjóri horfir bara á. Hversvegna eru þessar íþróttir ekki sýndar á íþróttarásinni? Eða plús-rásinni? Þetta staðfestir enn einu sinni að hjá þeim sem ráða í Efstaleiti er ekki snefill af virðingu fyrir þeim viðskiptavinum stofnunarinnar,sem ekki lifa fyrir boltaleiki. Þetta hefur verið sagt áður á þessum vettvangi og verður örugglega sagt aftur.

 

ÚTIBÚIÐ LOKAÐI

Svo lokaði útibú Landsbankans í Bolungarvík var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarps (22.09.2015). Var útibúinu ekki lokað? Lokaði það einhverju?

 


RÉTTMÆTAR ÁBENDINGAR

Gamall vinur og skólabróðir Molaskrifara , Sigurður Oddgeirsson,sem búsettur er í Danmörku sendi eftirfarandi (15.09.2015):

,,Sá þessa fyrirsögn á visir.is:

Tölvur í kennslustofum geti haft neikvæð áhrif. Færi ekki betur á, að fyrirsögnin væri:

Tölvur í kennslustofum gætu haft neikvæð áhrif. Og undirfyrirsögn: Skv. skýrslu frá OECD.

Og meira úr sömu skúffu:

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur eigi að hafa meira val í kjörklefanum

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur eiga að hafa meira val í kjörklefanum segir í frumvarpinu.

Gæti reyndar einnig verið:

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur ættu að hafa meira val í kjörklefanum segir þar.”

Kærar þakkir fyrir réttmætar ábendingar, Sigurður. Sjá m.a. Mola 1796a þar sem fjallað var um þessa sömu rangnotkun viðtengingarháttar. Þar nefndi Helgi Haraldsson prófessor emerítus í Osló mörg dæmi úr fjölmiðlum um ranga notkun á viðtengingarhætti.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband