Molar um málfar og miðla 1750

 

KARLMAÐUR EÐA KONA

Í Spegli Ríkisútvarpsins á miðvikudagskvöld (08.07.2015) var pistill um ferðamenn sem koma til Íslands. Þar sagði fréttamaður: ... þá var hinni dæmigerði ferðamaður um þrítugt, karlmaður eða kona, og kom frá ... Þetta hef sem sé verið hin merkilegasta rannsókn. Ferðamenn, sem heimsóttu Ísland, voru ýmist karlar eða konur. Þetta er mjög athyglisverð niðurstaða og hefur sjálfsagt komið rannsakendum alveg í opna skjöldu.

 

SIGRAÐI DAGLEIÐ

Íþróttafréttum Ríkissjónvarps (08.07.2015) var sagt frá hjólreiðakappa sem sigraði fyrstu dagleiðina í frönsku hjólreiðakeppninni Tour de France. Það er auðvitað mikið afrek. Í íþróttafréttum (11.07.2015) var sagt í tennisfrétt: Hún hefur nú sigrað öll fjögur stórmótin. Sigrað mót???

Í íþróttafréttum á sunnudagskvöld (12.07.2015) var okkur sagt, að Íslandsmótið í hestaíþróttum mundi klárast í kvöld. Og: Íslandsmótið er í þessu að ljúka !!! Í lok síðari hálfleiks sigu heimamenn upp... Hafþór sigraði þrjár greinar af sex .... Aftur og aftur heyrðum við talað um evvstu og evvsta í efsta. Hvaðan kemur þessi framburður? Leiðbeinir enginn nýliðum? Les enginn yfir? Er engin verkstjórn? Þetta var því miður mikill amböguflaumur á sunnudagskvöldið. Málfarsráðunautur hefur hér verk að vinna. Hvaða kröfur eru annars gerðar til nýliða, sem segja íþróttafréttir? Fara þeir í íslenskupróf ?

DV er lítið betra. Þar sigra menn einnig mót (11.07.2015): ,,Serena Williams sigraði í dag Wimbledon mótið og má segja að um sögulegan sigur sé að ræða. Bæði er Serena elsta konan sem hefur sigrað mótið, ...” Sjá: http://www.dv.is/folk/2015/7/11/jk-rowling-sneri-mann-hraustlega-nidur-twitter-ut-af-gagnryni-serenu/

 

 

AÐ GERA VEIÐI!

Úr Fréttablaðinu bls. 17 (09.07.2015): En þeir sem þekkja það (Þingvallavatn) vel og nota réttu aðferðirnar við veiðarnar eru að gera frábæri veiði dag eftir dag. Veiðimenn veiða. Þeir gera ekki veiði.

 

ÓVIÐUNANDI FRAMKOMA RÍKISÚTVARPSINS

Molaskrifara finnst það ósæmilegt og óviðunandi að Ríkisútvarpið skuli auglýsa bjór á ensku rétt fyrir fréttir (t.d. 10.07.2015). Í fyrsta lagi er bannað að auglýsa áfengi, Ríkisútvarpið gerir það engu að síður dag eftir dag. Í öðru lagi eiga auglýsingar í Ríkisútvarpinu að vera á íslensku, ekki á ensku. Sú regla hefur lengi verið í gildi. Hana ber að virða. Orðið léttöl heyrist illa og ógreinilega í niðurlagi þeirrar auglýsingar, sem hér er gerð að umtalsefni.

Annað dæmi um það, sem ef til vill mætti kalla ósvífni, var ódulbúin bjórauglýsing og slefandi bjórþamb umsjónarmanna Sumardaga á Seyðisfirði (09.07.2015). Í þættinum var viðtal á ensku og engin tilraun gerð til að endursegja efni þess. Þar að auki var því haldið fram að þýsk skip hefðu sökkt olíubirgðaskipinu El Grillo í Seyðisfirði! Rangt. Sjá til dæmis: http://www.austurfrett.is/lifid/1401-sjoetiu-ar-fra-thvi-adh-el-grillo-var-soekkt-allmikill-dynkur-er-skipidh-hvarf-i-djupidh

 Og svo var rætt við elsta búsetumanninn á Seyðisfirði !

Þetta er slæmt.

Ef stjórnendum Ríkisútvarpsins finnst þetta í lagi, þá eru þeir ekki í lagi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband