Molar um málfar og miðla 1748

VER OG VERBÚÐ

Molavin skrifaði (08.07.2015): - ,, ,,Um svo­kallaða ver­búð er að ræða, en Eyþór tel­ur að frá miðöld­um og allt til land­náms hafi fólk komið í verið, róið þaðan til sjáv­ar og sótt fisk sem síðan var færður aft­ur í verið og verkaður." Þessi texti er úr Morgunblaðinu 8. júlí. Blaðamaður (barn?) reiknar með því að lesendur þekki ekki orðið "verbúð" né það að fara í verið. Hugulsamt hjá honum að útskýra þetta skrýtna ferli og þá kenningu Eyþórs að slíkt hafi byrjað á miðöldum og verið stundað allt fram til landnáms!”

Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er alveg dæmalaus texti.

 

AÐ DRÚPA OG AÐ DRJÚPA

Úr fréttum Ríkisútvarps kl 01 00 og af fréttavef Ríkisútvarps (08.07.2015): Aleksandar Vucic segir tímabært að horfast í augu við það sem gerðist og drjúpa höfði fyrir fórnarlömbum annarra þjóða. Fréttaskrifarar verða að skilja og þekkkja merkingu þeirra orða sem þeir nota. Sögnin að drjúpa þýðir að falla eða leka í dropum, í dropatali. Drjúpa, draup, drupum, dropið.

Orðtakið að drúpa höfði er að vera gneypur, sitja álútur, lúta höfði í virðingarskyni, vera hryggur. Drúpa, drúpti.

Þessum tveimur sögnum er reyndar oft ruglað saman, en fréttaskrifarar í Efstaleiti eiga að hafa þetta á hreinu.

Hvar er metnaður fréttastofu Ríkisútvarpsins? Hvar er vandvirknin sem við eigum kröfu til að sé til staðar í fréttaskrifum þessarar þjóðarstofnunar? http://www.ruv.is/frett/vucic-minnist-fornarlamba-i-srebrenica Jafnvel þótt sögnin að drúpa hefði verið á sínum stað finnst Molaskrifara orðalagið fyrir fórnarlömbum annarra þjóða orka tvímælis,, - að ekki sé meira sagt.

 

ENN OPNA KJÖRSTAÐIR

Í Ríkisútvarpinu er maður, sem betur fer, eiginlega hættur að heyra að kjörstaðir hafi opnað eða kjörstaðir hafi lokað. Þetta er orðalag er hinsvegar enn í góðu gildi á Bylgjunni (05.07.2015). Þar var sagt í fréttum á sunnudagsmorgni um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Grikklandi, - kjörstaðir opnuðu í morgun, svo var líka talað um að markaðir opnuðu. Kjörstaðir í Aþenu opnuðu klukkan sjö í morgun, sagði fréttamaður í fréttum Stöðvar tvö um kvöldið.

Í sama fréttatíma Bylgjunnar talaði fréttamaður um stúlkunar (stúlkurnar). Hann sagði líka árásarmenninir (árásarmennirnir). Þetta ætti talkennari auðveldlega að geta lagað.

 

AÐ SNÚA AFTUR

Af mbl.is (06.07.2015): Þró­un­in var ör hjá fyr­ir­tæk­inu þar sem Shufu skipti yfir í mótor­hjóla­fram­leiðslu árið 1993 en lagði svo bíl­ana fyr­ir sig árið 1997 og hef­ur ekki snúið aft­ur. Ekki verður sagt, að þetta sé lipurlega þýtt eða orðað. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/07/06/milljardamaeringur_med_biladellu/

 

 

ÓSKEMMTILEGT

Í útvarpskynningu á sjónvarpsþættinum Sumardögum (08.07.2015) , segir stúlkurödd, að það skemtla við þetta sé ... Það skemmtilega á hún við. Þessi framburður heyrist að vísu stundum ,en hann á ekki heima í Ríkisútvarpinu. Enda er hann óskemmtilegur.

 

HRÓSIÐ

Mikið er hún Anna Sigríður Einarsdóttir á Rás eitt, góður þulur. Leitun að betri og áheyrilegri þul.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband