4.6.2015 | 08:26
Molar um málfar og miðla 1729
Molavin skrifaði (03.06.2015): ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók konu í annarlegu ástandi á Austurvelli..." segir í upphafi fréttar á Vísi í dag, 3. júní. Þetta er vitaskuld ekki rangt en óþarfa málalenging að nota fullt heiti embættisins. ,,Lögregla handtók konu..." segir nóg. Lipur texti án málalenginga er kostur. Það ættu ritstjórar að brýna fyrir nýliðum. - Hverju orði sannara. Molaskrifari þakkar bréfið.
Þorvaldur skrifaði (01.06.2015): ,,Í Mogga í dag sagði frá kókaínsmygli til Spánar í ananasávöxtum. Þar sagði að ananasarnir hefðu innihaldið kókaín sem komið hefði verið fyrir í ananösunum. Merkileg og áður óþekkt beyging.
Einnig er talað um skip og sagt að skipið gerði út frá tilteknum stað. Skip gera ekki út, það gerir útgerðarmaður. Þetta með skipin sem gera út hefur áður heyrst og verið nefnt í Molum. Molaskrifari þakkar Þorvaldi þarfar ábendingar.
Af mbl.is (02.06.2015): Strandblak hefur á síðustu árum stækkað mikið hér á landi og í dag eru nokkur hundruð manns sem spila íþróttina að jafnaði. Vinsældir strandblaks hafa aukist eða vaxið hér á landi. Íþróttagreinar stækka ekki. Nokkur hundruð manns iðka íþróttina. Ekki spila íþróttina. Molaskrifari heyrir stundum talað um Ísland sem klakann, svona í góðlátlegum hálfkæringi. Orðið á ekki erindin í fyrirsögn í fjölmiðli eins og hér. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/02/strandblaksaedi_a_klakanum/
Í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins á hádegi á þriðjudag (02.06.2015) var sagt: Meirihluti landsmanna telur að ríkisstjórnin leggi meiri áherslu á afkomu bankanna en heimilin í landinu. Hljómaði undarlega. Ekki nægilega skýr hugsun. Það hefði látið betur í eyrum Molaskrifara, ef sagt hefði verið: - Meirihluti landsmanna telur að ríkisstjórnin leggi meiri áherslu á afkomu bankanna en afkomu heimilanna í landinu. Skýrara.
Eina útvarpsrásin, sem Molaskrifari hlustar á staðaldri á í bílnum (fyrir utan fréttir á öðrum rásum) er Rondó Ríkisútvarpsins. Þar er útvarpað tónlist af ýmsu tagi, lang oftast góðri tónlist. Engar kynningar. (Um það má deila.) Engar ambögur. Þetta er sjálfsagt tölvuvalið af handahófi úr stóru safni. Molaskrifara brá í brún á mánudagsmorgni (01.06.2015), rétt fyrir hádegið, þegar þjóðsöngurinn, Ó, guð vors lands , allt í einu hljómaði á Rondó. Þjóðsönginn á ekki að spila að tilefnislausu. Það á að fjarlægja hann úr tónverkasafninu, sem Rondó nýtir. Þetta hefur gerst áður áður. Þetta hefur líka verið nefnt áður í Molum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.