30.4.2015 | 08:13
Molar um málfar og miðla 1718
Af mbl.is (26.04.2014): ,,Svíarnir höfðu verið á leiðinni að sjá Les Misérables á Broadway en víluðu ekki fyrir sér að stíga inn í. Sænskir lögreglumenn í leyfi í New York yfirbuguðu tvo útigangsmenn sem voru að slást í lest í New York. Lestarstjórinn spurði hvort lögreglumenn væru í lestinni og Svíarnir brugðust skjótt við. Að tala um að þeir hafi stígið inn í er bara rugl. Stígið inn í hvað?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/26/saenskar_hetjur_i_new_york/
Í Garðapóstinum 14. tbl. ( 22.04.2015) sagði sr. Jóna Hrönn Bolladóttir að forsetinn, ÓRG, mundi prédika í Vídalínskirkju sunnudaginn 26. apríl og sóknarpresturinn segir: ,, En það er alveg magnað að hlýða á forsetanna tala um kirkju og kristni. Það getur vel verið að ÓRG hafi sagt eitthvað skynsamlegt um kirkju og kristni eftir að hann tók við ábúð á Bessastöðum með kirkjuna á hlaðinu. Sjálfsagt hefur hann sagt eitthvað af viti í Vídalínskirkju. En Molaskrifari var ÓRG nokkuð lengi samtímis í pólitík og minnist þess hvorki, að kirkja né kristni hafi verið ofarlega á málefnalista hans. Hvorki á þingi né í þjóðmálaumræðunni. Kannski kunna aðrir betri skil á því. Félagar hans í stjórnmálum tóku hinsvegar eftir skyndilegum áhuga hans á kristni og kirkjusókn eftir að hann ákvað að fara í fosetaframboð. Þá upphófst mikil kirkjusókn. Menn voru svolítið að gantast með þetta í gamla daga.
Húsið er í góðu viðhaldi, segir í fasteignaauglýsingu í Fréttablaðinu (27.04.2015). Átt er við að húsinu hafi verið haldið vel við, viðhaldi þess verið vel sinnt.
Rætt var um veðráttuna, kulda og snjókomu, snjóflóð í sumarbyrjun í morgunþætti Bylgjunnar (27.04.2015). Uppselt væri í ferðir til sólarlanda. Umsjónarmaður sagðist afbrýðisamur út í þá Íslendinga sem væru á leið í sólina. Hefði ekki verið betra að tala um öfund í stað afbrýði? Hefði haldið það.
Þetta stóð óleiðrétt á mbl.is allan mánudaginn (27.04.2015) : ,, ... að hann hafi selt Hauki Harðarsyni, eins af eigendum fyrirtækisins Orka Energy, íbúð sína við Ránargötu fyrir 53,5 milljónir króna og samið síðan um að greiða 230 þúsund krónur á mánuði... - ... einum af eigendum fyrirtækisins , hefði þetta átt að vera. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/27/leigan_230_thusund_a_manudi/
Enginn les yfir fyrir birtingu. Enginn les eftir birtingu.
Tölvukerfi héraðsdóms á hliðinni, sagði í fyrirsögn á mbl.is (27.04.2015). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/27/tolvukerfi_heradsdoms_a_hlidinni/
Í fréttinni segir: ,, Tölvukerfi Héraðsdóms Reykjavíkur er í einhverju ólagi .... Kerfið var sem sé bara í ólagi en ekki á hliðinni! Á visir.is sagði sama dag um sama mál í fyrirsögn: Tölvukerfi héraðsdóms liggur niðri. Sjá: http://www.visir.is/tolvukerfi-heradsdoms-liggur-nidri/article/2015150429277
Kerfið lá hvorki niðri né uppi. Það var í ólagi.
Ja, hérna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.