Molar um málfar og miðla 1717

 

Það er til marks um hve valt er að treysta fyrstu fréttum af náttúruhamförum, nú síðast fregnum af jarðskjálftanum í Nepal, að marg sagt var í fyrstu fréttum, að ekki væri vitað um manntjón. Það var áreiðanlega rétt, - svo langt sem það náði. Skjálftinn var fyrst sagður 7,5 á Richter kvarðann og því ljóst að þetta var mjög harður jarðskjálfti og hús á þessum slóðum yfirleitt ekki traustbyggð. Síðar var styrkleikinn sagður 7,8 eða 7,9 stig. Páll Einarsson prófessor benti réttilega á það hve varlega menn skyldu trúa fyrstu fréttum af náttúruhamförum, þegar rætt var við hann í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (26.04.2015). Núna eftir helgina hefur verið sagt að hugsanlega hafi tíu þúsund manns farist og hörmungarnar eru ólýsanlegar.

 

 Það var margt sem gerði það að verkum að Molaskrifari fór að skipta sér af málfari í fjölmiðlum. Eitt var, þegar hann heyrði eða las að málstaður ætti undir vök að verjast. Sá sem skrifaði, eða talaði, vissi greinilega ekki hvað vök var.

 Mörg orðtök og myndlíkingar munu hverfa vegna þess að verkfærin eða vinnulagið eru ekki lengur til. Hvað verður langt þangað til ungt fólk hættir að skilja að barátta fyrir einhverju máli aða að settu markmiði geti orðið þungur róður? Skilur það ekki vegna þess, að enginn veit lengur hvað orðið róður merkir eða sögnin að róa. Róa öllum árum að einhverju ,skilst þá sennilega ekki heldur og hverfur einnig. Eflum móðurmálskennslu í skólum landsins.

 

Brestir: Útfararstjórar í kennitölubraski, var afar villandi fyrirsögn á visir.is (25.04.2015). http://www.visir.is/brestir-utfararstjorar-i-kennitolubraski/article/2015150429377

Í fréttinni er skýrt út hverjir ,,útfararstjórar” séu: ,, Í þeim leiðangri rakst hún á fyrirbærið „útfararstjóra“ - menn sem leppa einkahlutafélög sem eru á leið í þrot, til að eigandinn, sá sem kom því á bjargbrúnina, geti haldið óflekkuðu mannorði.” - Ófaglegt, - ekki góð vinnubrögð.

 

 Einstaklega vel skrifuð stórfrétt á mbl.is (25.04.2015): ,,Ekki er hægt að segja að mik­ill er­ill hafi plagað Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins í nótt. Þó dróg til tíðinda upp úr eitt í nótt þegar neyðarkall barst frá miðbæn­um þar sem fimm höfðu fests í lyftu”.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/25/festust_i_lyftu_i_midbaenum/.

Enginn las viðvaningsskrifin yfir. Svo sem engin nýlunda.

 Vettvangur keppir við aðila í lögreglufréttum svo vart má á milli sjá hvort orðið er vinsælla. Bæði þessi orð eru oft notuð að óþörfu.

Af visir.is (26.04.2015): Hér hefði nægt að segja: Sló konu og flúði. http://www.visir.is/slo-konu-vid-sudurgotu-og-fludi-vettvang/article/2015150429349

Hvað eru harðnaðir hermenn, sem, rætt var um í fréttum Ríkissjónvarps (26.04.2015) ?

Ekki leggja Kastljósið líka undir íþróttir (28.04.2015). Nóg er nú samt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband