9.4.2015 | 08:40
Molar um málfar og miðla 1710
Áskell skrifaði (03.04.2015): ,,Mbl.is á eftirfarandi línur: "Varðskipið Þór er nú á leið til aðstoðar flutningaskipinu Hauk sem er stjórnvana um fimm sjómílur suður af Dyrhólaey.
Flutningaskipið Haukur missti stjórnhæfni á miðvikudag út af Hornafirði ..." Ég hef aldrei heyrt talað um stjórnvana skip eða að skip "missi stjórnhæfni". Skip geta orðið vélvana og rekið undan veðri og vindum. Sama hér, Áskell. Hef reyndar oftar heyrt sagt, - vélarvana. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/03/thor_og_haukur_a_leid_til_hafnar/
Trausti benti á þessa frétt á dv.is (03.04.2015): http://www.dv.is/skrytid/2015/4/3/augnskodun-netinu-serd-thu-einstein-eda-monroe/
Hann spyr: ,,Fá fréttabörnin virkilega að skrifa sitt barnamál óáreitt í fjölmiðla?
Mér finnst þetta satt að segja algerlega óboðlegur texti og fjölmiðill, sem ætlar sjálfum sér eitthvert líf, verður að geta gert betur en þetta.- Þakka ábendinguna, Trausti.
Hafði ritstjórn með verkinu, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (04.04.2015) um skýrsluskrif. Ritstýrði verkinu, hefði verið betra.
Forsetningar vefjast stundum fyrir fréttaskrifurum. Í hádegisfréttum Bylgjunnar (06.04.2015) var fjallað um hafrannsóknir og talað um grundvallarrannsóknir við Íslandsmið. Hér hefði Molaskrifara fundist eðlilegra að tala um grundvallarrannsóknir á Íslandsmiðum.
Enn einu sinni birtist hér fallafælnin, - hræðslan við að hefja setningu á orði sem ekki er í nefnifalli, - af mbl.is (04.04.2015): ,,Kennari sem leigði stofu við virtan einkaskóla í Birmingham í Englandi hefur verið vikið úr skólanum eftir að gengið var inn á hann að stunda kynlíf með ástkonu sinni í yfirgefinni skólastofu. Þetta ætti að vera: ,, Kennara, sem ..... hefur verið vikið úr starfi... Raunar þarf ekki mjög glöggan lesanda til að sjá að fleira mætti þarna betur fara , - gengið var inn á hann .... í yfirgefinni skólastofu. Sama gildir um fyrirsögnina: Gómaður í kynlífsathöfnum .... Fréttin: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/04/gomadur_i_kynlifsathofnum_i_skolastofu/
Ekki hefur Molaskrifari tölu á því í hve mörgum fréttatímum Ríkisútvarpsins á laugardag og á páskadag var sagt frá því að erlendur trommuleikari hefði látist í bílslysi eftir ,,að hafa ekið á póstkassa og á tré. Maðurinn hét Bob Burns og lék um tíma með hljómsveitinni Lynrd Skynrd. Molaskrifari er einstaklega illa að sér um seinni tíma popptónlist og hefur aldrei heyrt manninn nefndan né heldur hljómsveitina,- en það er auðvitað ekkert að marka. En hefði ekki verið nóg að segja okkur þetta einu sinni, eða í mesta lagi tvisvar?
Í fréttum Stöðvar tvö á páskadag var okkur tvísagt, að í dag (05.04.2015) hefði páskadagur verið haldinn hatíðlegur um land allt. Seint verður þetta talið frumlegt orðalag. Minnti Molaskrifara á að einhvern tíma á frétt að hafa byrjað svona í einhverjum fjölmiðlinum: Í dag var 17. júní um land allt ....
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Athugasemdir
Góðan dag Eiður,
Munur er á stjórn og vélarvana skipum. Sé vél biluð, hefur skip ekki afl til að koma sér til hafnar. Sé hinsvegar stýri bilað, eða brotið, getur skip ekki stýrt sér til hafnar og er þar að leiðandi stjórnvana.
Kv. Reynir
Reynir (IP-tala skráð) 9.4.2015 kl. 10:56
Flutningaskipið Haukur varð ekki vélarvana, vél þess var í góðu lagi. Hins vegar missti skipið stýrið og varð því óstjórnhæft.
Þorvaldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.4.2015 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.