Molar um málfar og miðla 1703

 

Fréttaglöggur vinur Molanna benti skrifara á, að fréttin um flugslysið í Frakklandi þar sem 150 manns fórust, hefði verið frétt númer tvö í kvöldfréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (24.03.2015). Molaskrifara er jafn hissa og þessi vinur Molanna. Furðulegt fréttamat. Ríkissjónvarpið var með þetta á hreinu og gerði fréttinni fagmannleg skil.

Fyrsta frétt á Stöð tvö þetta kvöld var gömul frétt um unga konu, sem bjargað var giftusamlega undan bíl , en hún hafði misst stjórn á bílnum og hann oltið. Sagt var í fréttinni, að unga konan hefði verið að tala í síma. Það var svo dregið til baka (enda er slíkt lögbrot) og sagt að hún hefði verið að tala við börn sín í aftursætinu. Áður hafði komið fram í fréttum að unga konan hefði ekki verið í bílbelti, enda kastaðist hún út úr bílnum. Hún var heppin að sleppa lifandi.

Molaskrifari ætlar ekki að hafa um það mörg orð hvað hann hugsar, þegar hann bíður við umferðarljós á fjölförnum og hættulegum gatnamótum (til dæmis Miklubraut/Kringlumýrarbraut, Kringlumýrarbraut/Suðurlandsbraut) og sér hvern ökumanninn af öðrum bruna hjá blaðrandi í síma, stundum á 2-3 tonna jeppum, eða þaðan af stærri farartækjum, með hugann við allt annað en aksturinn. (Dýrleiki bílanna veitir ekki undanþágu frá lögum og reglum). Eða fólkið sem ekur í miðreininni á Hafnarfjarðarveginum á 40-50 km hraða niðursokkið í símtal eða sendingu smáskilaboða (já!) og veit ekkert af veröldinni í kring um sig.

Fælingarmáttur löggæslu og sekta vegna símnotkunar í akstri er greinilega enginn – nákvæmlega það sama gildir um að nota ekki stefnuljós.

Hér þarf hugarfarsbreytingu til að auka öryggi í umferðinni og fækka slysum.

 

Nú er búið að gefa málfarspistlum Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins nafn. Málskot skulu þeirra heita. Ágætt nafn. Molaskrifari hvetur fjölmiðlafólk og raunar alla til að hlusta á þessa pistla á þriðjudagsmorgnum. Gott og þarft efni. Mætti þess vegna vera tvisvar í viku.

 

Þegar fulltrúi WOW flugfélagsins segir okkur í fréttum (25.03.2015) að flugfloti flugfélagsins sé sá yngsti á Íslandi, er hann þá ekki að segja okkur að félagið noti nýrri þotur en Icelandair? 6300 þotur af gerðinni Airbus A320 eins og WOW notar ( og eins og sú sem fórst í frönsku Ölpunum) eru í notkun hjá meira en 300 flugfélögum. Þær hefja sig til flugs eða lenda með nokkurra sekúndna millibili víðsvegar í veröldinni. Eru í miklum metum sem traustir farkostir. Það eru Boeing þotur Icelandair ekki síður. Í flugheiminum veit Molaskrifari að Icelandair nýtur trausts og virðingar fyrir viðhald- og eftirlitskerfi með flugflota sínum, sem er talið með því besta sem þekkist. – Vísbendingar eru nú komnar fram, að það hafi ekki verið bilun í tækjabúnaði, sem olli flugslysinu hörmulega í Ölpunum.

 

Prýðileg heimildamynd um þann grimma sjúkdóm Alzheimer var sýnd í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (24.03.2015). Að öðrum ólöstuðum voru viðtölin við Jón Snædal lækni og Sigtrygg Bragason eftirminnilegust. Þættir á borð við þennan eru ekki mjög dýrir í framleiðslu,- aðeins brot af kostnaði við einn svokallaðan Hraðfréttatíma. Ríkissjónvarpið mætti sýna meira af svona efni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á þeim tíma sem við unnum saman í fréttunum, ég og Logi Bergmann, fundum við upp nokkur kjörorð í fréttamennsku. Eitt þeirra var þetta af marg gefnum tilefnum: "Fyrsta frétt er allta fyrsta frétt!"

Í því felst. að upp geta komið aðstæður, þar sem fyrsta frétt er ekki tilbúin þegar fréttatíminn hefst, og það kann að hafa verið orsök þess að frétt, sem átti að verða fyrst á Stöð 2, varð önnur frétt.

Vinna við að gera fréttir klárar til útsendingar er oft á tæpasta vaði og því er gott að hafa varaáætlun tilbúna um það að fyrsta frétt verði fyrsta frétt, sama á hverju dynur, með því að eiga upp í erminni möguleika á að senda út styttri gerð hennar í upphafi með tilvísun í það að nánar verði fjallað um málið síðar í fréttatímanum.

Einhverjum kann að finnast slíkt bera vitni um vandræðagang, en geluleikur fer fjölmiðlum ávallt illa, því að það að bera sannleikanum vitni er æðsta krafa fjölmiðlunar.  

Ómar Ragnarsson, 26.3.2015 kl. 09:01

2 identicon

Í fréttum af þessu hörmulega flugslysi er aftur og aftur sagt frá því að tvö ungabörn hafi verið í vélinni.  Þetta orðskrípi, ungabarn, hefur rutt sér til rúms, venja var að kalla yngstu börnin kornabörn en ungbörn þau sem voru aðeins eldri.

Þorvaldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.3.2015 kl. 10:57

3 identicon

þakka þér fyrir jákvæða umfjöllum um heimildarmyndina um Alzheimer sem sýnd var á RUV 24. mars sl. Nú er mér ekki kunnugt um kostnað RUV við Hraðfréttatímana, en mér er vel kunnugt um kostnað við gerð heimildarmyndarinnar sem FAAS - Alzheimerfélagið lét gera og bar allan kostnað af. Fyrir félög eins og FAAS er stórt mál að ráðast í verkefni sem þetta, enda er lítinn fjárhagslegan stuðning til verkefnanna að sækja. Sem dæmi má nefna að framleg ríkisins til starfsemi félagins árið 2014 dugði engan veginn fyrir kostnaði við myndina. Það er mikilvægt að auka umræðu og þekkingu um heilabilun í samfélaginu og vonandi verður heimildarmyndin lóð á þá vogarskál. Með góðri kveðju/ Svava Aradóttir, framkvæmdastjóri FAAS

Svava Aradóttir (IP-tala skráð) 28.3.2015 kl. 09:58

4 identicon

  Félagi Ómar, -  það er  vont  vinnulag ef  frétin um flugslysið var ekki tilbúin til útsendingar. - Þetta skeði svo löngu fyrr um daginn. Ég hef  miklu frekar á tilfinningunni, - eins og raunar annar gamall fréttamaður sem ég ræddi við, að Stöðvar  tvö hafi  fundist það meiri frétt að  vera fyrstir með viðtal við mennina, sem  lyftu bílnum ofan af konunni, sem kasast hafði út því hún var ekki í bílbelti. Hafi þetta evrið fréttamatið, - þá er það alvarleg brenglun, -   finnst mér.

  Dvava, - þakka þér orðin. Méwr  kæmi  ekki  ekki á óvart þótt örfáir þættir hinn arfavitlausu og oft  subbulegu  Hraðfrétta kostu  jafngildi  framlags  ríkisins  til FAAS. Ríkissjónvarpið ætti að sjá s+óma sinn í að gera svona þætti að eigin frumkvæði, - en þar beinist frumkvæðið því miður of mikið að fótbolta.

Eiður (IP-tala skráð) 28.3.2015 kl. 10:13

5 identicon

Birt aftur- slapp út óyfirlesið:

 Félagi Ómar, -  það er  vont  vinnulag ef  fréttin um flugslysið var ekki tilbúin til útsendingar. - Þetta skeði svo löngu fyrr um daginn. Ég hef  miklu frekar á tilfinningunni, - eins og raunar annar gamall fréttamaður sem ég ræddi við, að þeim á Stöð tvö hafi  fundist það meiri frétt að  vera fyrstir með viðtal við mennina, sem  lyftu bílnum ofan af konunni, sem kastast hafði út því hún var ekki í bílbelti. Hafi þetta verið fréttamatið, - þá er það alvarleg brenglun, -   finnst mér.

  Svava, - þakka þér orðin. Mér  kæmi  ekki  ekki á óvart þótt örfáir þættir hinn arfavitlausu og oft  subbulegu  Hraðfrétta kostuðu  jafngildi  árlegs framlags  ríkisins  til FAAS. Ríkissjónvarpið ætti að sjá sóma sinn í að gera svona þætti að eigin frumkvæði, - en þar beinist frumkvæðið því miður of mikið að fótbolta.

Eiður (IP-tala skráð) 28.3.2015 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband