20.3.2015 | 07:32
Molar um málfar og miðla 1699
Gaman var að heyra Emil Björnsson, þá fréttamann á fréttastofu útvarpsins, lýsa sólmyrkvanum 1954 austan úr Landeyjum, en það mátti heyra í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi(19.03.2015). Maður hreifst með. Vakti gamlar minningar um yfirmann á fréttastofu Sjónvarpsins og traustan vin. Séra Emil var kröfuharður um málfar, smekkmaður, málvís, einstaklega vel máli farinn. Ræðumaður góður, prestur Óháða safnaðarins um árabil. Flutti jafnan prédikanir blaðalaust. Vinnuþjarkur. Um tíma var hann blaðamaður á Vísi fyrir hádegi. Á fréttastofu útvarpsins frá hádegi og fram að kvöldmat, og prestur um helgar!
Hann gerði miklar kröfur til okkar fréttamanna. Búum held ég öll, sem enn erum á kreiki, að því enn. Það fór engin frétt óyfirlesin til áheyrenda. Hann nestaði okkur vel. Innrætti okkur að umgangast móðurmálið með virðingu. Gott hjá útvarpinu að rifja þetta upp.
Jón Gunnarsson segist ekki reka minni til þess, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (18.03.2014). Þetta orðalag heyrist nokkuð oft. Molaskrifari telur að betra hefði verið að orða þetta á annan veg. Kann að vera sérviska, - eins og svo margt fleira hjá skrifara. Til dæmis: Jón Gunnarsson segir sig ekki reka minni til þess ..., eða, - Jón Gunnarsson segist ekki minnast þess ....
Skúli Gunnar Vigfússon sendi Molum ábendingu (19.03.2015) undir fyrirsögninni: Fréttabörn mbl.is . Í þessu tilviki er það sögnin að valda ,sem enn einu sinni veldur óvönum fréttaskrifara vandræðum. Í fréttinni á mbl.is stendur: ,,Þú veist ekki hvaða skaða þú hefur ollið því skaðinn gæti komið í ljós fyrst eftir mörg ár. Þakka Skúla ábendinguna. það er engin sögn til, sem heitir að olla. Hér er frétt mbl.is http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/18/stundadi_kynlif_med_nemanda/
Skyldi það hafa verið að beiðni Ríkissjónvarpsins, að Færeyingar töluðu við okkur ensku í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (19.01.2015)? Trúi því ekki. Í Morgunútgáfunni í morgun var rætt við Elís Poulsen í Sandey í Færeyjum. Hann talar íslensku,- lærði hana m.a. hjá Halldóri Blöndal, seinna ráðherra, - gekk þá í Lindargötuskólann. Gagnfræðaskólann við Lindargötu í Reykjavík.
Meira af mbl.is (18.03.2015): ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að þeir sem leggja á hjólastígum, eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd sem barst lögreglunni, séu að sýna samborgurum sínum ótillitssemi, óhagræði og séu í raun að reka hjólaumferð aftur út á gangstéttir og götur.Hér er talað um að sýna ótillitssemi, - betra væri að tala um tillitsleysi, og svo sýnum við ekki öðrum óhagræði, þegar við sýnum tillitsleysi , getum við valdið öðrum óhagræði. Þegar betur er að gáð, kemur í ljós að þetta er afritað, eða klippt og límt, eins og stundum er sagt beint af vef lögreglunnar. Ekki nægilega vönduð vinnubrögð hjá blaðamanni mbl.is. https://www.facebook.com/logreglan?fref=nf
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Athugasemdir
Ég hef aldrei kynnst manni, sem hafði eins óbrigðult málskyn og séra Emil. Það var á við að vera í háskólanámi í íslensku að vera undir hans smásjá.
Í haust var ákveðið hjá Sjónvarpinu að gefa út ýmsa gamla þætti á mynddiskum, og var meðal þeirra 100 mínútna þáttur um Skaftáreldana, þar sem Magnús Bjarnfreðsson heitinn sá um stóran hluta verksins, aðallega þann, sem snerti byggðina.
Ég fór að sjálfsögði vandlega yfir þáttinn til að athuga hvort ekki þyrfti að stytta, snyrta eða bæta, og uppgötvaði hve afar góður texti Magnúsar var, - hrein unun á að hlýða.
Varð því ekkert af því að stytta eitt eða neitt og efni þáttarins í fullu gildi nú, þegar eiturgufur hafa hrellt landsmenn vegna goss í Holuhrauni, en þó í svo miklu minna mæli en í Skaftáreldunum, að það tekur varla að nefna það.
Ómar Ragnarsson, 20.3.2015 kl. 11:41
Satt segirðu, gamli vinur, og ekki var málskyn Magnúsar mikið lakara. Þeim var þetta báðum svo eiginlegt og eðlilegt.
Eiður Svanberg Guðnason, 20.3.2015 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.