Molar um málfar og miðla 1696

  

Við ætlum að spila lagabút, sagði þáttarstjórnandi á Rás tvö síðdegis á laugardag (14.03.2015) Lagabút, - hluta úr lagi, bút úr lagi. Það var og. Fólk þarf ekki að vera mjög vel talandi til að vera trúað fyrir þáttastjórn í Ríkisútvarpinu. Það er miður að ekki skuli gerðar meiri kröfur þar á bæ.

 

Skegg atvinnulífsins massar mottumars, segir í fyrirsögn á bls. 10 í Morgunblaðinu á laugardaginn (14.03.2015). Molaskrifari las fréttina,sem fyrirsögninni fylgdi og er litlu nær. Illa komið, ef maður skilur ekki lengur flennifyrirsagnir í Mogga!

 

Málfari fer ekki mikið fram í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Í gærmorgun (16.03.2015) var talað um ,, nokkur trikk sem bæri að hafa í huga í ræðamennsku”. Svo var slett á okkur ensku: ,, .. oft langað til að gera svona give me five”. Ómenguð enska. Hversvegna ekki tala íslensku?  

 

Í þrjú fréttum Ríkisútvarpsins á laugardag (14.03.2015) sagði fréttamaður okkur frá gifsplötu sem féll úr lofti salsins í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Fréttin byrjar á 03:13: http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20150314

Beyging orðsins salur: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=salur

Þarna virðist skorta nokkuð á kunnáttu í beygingu orðs ,sem þó er ekki mjög sjaldgæft.

Þetta var endurflutt athugasemdalaust í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag. ...úr lofti salsins. Hlustar enginn í Efstaleitinu?    

 

Ölduhæð verður há, var sagt í aðvörun (13.03.2015) frá Veðurstofunni vegna óveðurs. Ölduhæð verður mikil. Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag var einnig talað um háa ölduhæð.

 

Molaskrifari sá á dögunum hluta úr þáttaröð Stöðvar tvö Margra barna mæður. Um mæður með mörg ung börn. Snjöll hugmynd og vel útfærð, - alla vega sá hluti þáttarins, sem skrifari sá. Hrós fyrir það. Eftir á að hyggja er raunar furðulegt að engum skuli haf dottið þetta í hug fyrr.

 

Þrjár smávörur fyrir tvær, - var sagt í útvarpsauglýsingu fyrir helgina.

Tvær vörur, þrjár vörur. Nokkuð algengt orðið að heyra þetta. Hefði ekki eins mátt segja , - þrennt fyrir tvennt í smávörunni hjá okkur?

 

Sennilega er svolítið erfitt fyrir marga að átta sig á hvað30 metra vindhraði á sekúndu er mikill hraði. Ágætt væri, ef veðurfræðingar töluðu stöku sinnum um  xx um metra á sekúndu sem jafngiltu xx kílómetrum á klukkustund.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband