11.3.2015 | 07:01
Molar um málfar og miðla 1692
Molaskrifari er ekki mjög hrifinn af orðinu snjóbylur, sem tönnlast var á í Ríkisútvarpinu í gærmorgun (10.03.2015). Hefur verið nefnt hér áður. Virðist sumum fréttamönnum tungutamt. Hvað varð um hið ágæta orð stórhríð? Allir búnir að gleyma því? Ekki allir reyndar. Það kom á skjáinn í veðurfregnum Ríkissjónvarps í gærkvöldi og Birta Líf veðurfræðingur notaði það í veðurfréttum. Plús fyrir það.
Í fréttum Ríkisútvarps á sunnudagskvöld (08.03.2015) var talað um að auka fjármagn á friðlýst svæði og ferðamannastaði. Auka fjármagn á svæði?
Af mbl.is (09.03.2015): Fyrirsögnin er: Fullyrðir að kærastinn sé undir rannsókn . Síðan segir: ,,Leolah Brown, systir Bobbi Kristina Brown, fullyrðir að Nick Gordon, kærasti Bobbi, sé undir rannsókn fyrir að hafa reynt að myrða kærustu sína.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/03/08/fullyrdir_ad_kaerastinn_se_undir_rannsokn/
Af netinu: ,,Leolah Brown isn't holding back. Bobby Brown's sister is claiming in a new Facebook post that Nick Gordon is under investigation for attempted murder of her niece, Bobbi Kristina Brown.
Var þetta Google þýðingavélin?
http://www.usmagazine.com/celebrity-news/news/leolah-brown-says-nick-gordon-under-investigation-for-attempted-murder-201573
Í fréttum Ríkissjónvarps (08.03.2015) var talað um að fólk hefði komið saman á minningarathöfnum í dag. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að fólk hefði komið saman við minningarathafnir í dag? Molaskrifari hallast að því. - Ég var við athöfn. Ekki á athöfn.
Á föstudagskvöld (06.03.2015) festist Molaskrifari við áhorf á fréttaskýringaþátt CBS Sixty Minutes í danska sjónvarpinu. Þar var að venju vönduð rannsóknablaðamennska á ferð. Meðal annars var sagt frá baneitruðum gólfborðum , einskonar gerviparketti sem bandarískt fyrirtæki Lumber Liquidators hefur flutt inn frá Kína og selt í stórum stíl í Bandaríkjunum. Við framleiðsluna er notað margfalt leyfilegt magn af krabbameinsvaldandi efnum, m.a. formaldehýdi. Molaskrifari veltir því fyrir sér hvernig eftirliti með innflutningi slíkra gólfefna sé háttað hér á landi, eða hvort nokkurt eftirlit sé með innflutningi af þessu tagi. Þetta var heldur óhugnanlegt á að hlýða og horfa.
Á sunnudagskvöld, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, (08.09.2015) sýndi danska sjónvarpið, DR1, heimildamyndina ,sem gífurlega athygli hefur vakið, Dætur Indlands. Myndin er í senn átakanleg og óhugnanleg. Rót hennar er hópnauðgun og dráp ungrar stúlku, sem skók heimsbyggðina fyrir tæplega þremur árum. Það var erfitt að horfa á myndina. Hún verður sýnd í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldið kemur. Rifjaðist upp að þjóðhöfðingi okkar Íslendinga er nýkominn úr milljarðamæringsbrúðkaupi á Indlandi. Veislan stóð í þrjá daga og kostaði jafnvirði rúmlega þriggja milljarða íslenskra króna, að sögn breskra blaða. Þar var víst helsta og ríkasta þotulið heimsins. En það er annað Indland, sem áhorfendur sjá í myndinni Dætur Indlands. Annað land og heldur ógeðfellt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.