Molar um málfar og miðla 1691

 

Týndi áttum vegna lélegs skyggnis, sagði í fyrirsögn á mbl.is í gær (09.03.2015). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/09/tyndi_attum_vegna_lelegs_skyggnis/

Menn týna ekki áttum! Maðurinn sem í hlut átti villtist. Hann varð áttavilltur. ,, Maður­inn hafði sam­band við lög­reglu rétt eft­ir klukk­an 16 í dag þegar hann hafði týnt átt­um vegna lé­legs skyggn­is.”Seinna í fréttinni segir: ,,Maður­inn var einn á göngu og það gekk allt vel þar til skyggnið hjá hon­um gjör­sam­lega fór allt vegna snjó­komu” Það var og.

 

Í Útsvari Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (06.03.2015) var spurt, þegar leikatriðið var að hefjast: Hver ætlar að stíga á stokk? Aftur og aftur heyrist þetta orðtak notað andstætt málvenju. Í vaxandi mæli notar fjölmiðlafólk það til dæmis um listamenn, sem ætla að flytja tónlist. Koma fram. Um þetta orðtak má meðal annars fræðast í þeirri ágætu bók Jóns G. Friðjónssonar Merg málsins (bls.836). Að heita einhverju hátíðlega. Lýsa yfir. Stíga á stokk og strengja heit.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (06.03.2015) sagði ráðherra: ,, ... sem getur leitt til þess að aflandskrónuvandinn verði fyrir aftan okkur”. Ekki finnst Molaskrifara þetta orðalag vera til sérstakrar fyrirmyndar. Enskukeimur af því. Hefði kannski mátt segja , - sem gæti leitt til lausnar á aflandskrónuvandanum.

Í fréttum Stöðvar tvö (07.03.2015) sagði alþingismaður: ,,Þetta er algjörlega mjög óheppilegt.”. Ekki til fyrirmyndar heldur.

 

Molaskrifari hlustaði á hluta þáttarins Sirrý á sunnudagsmorgni á Rás tvö. Þar er oft sitthvað bitastætt og fróðlegt. Ágætt var að fá skýringar Ingólfs Bjarna á nýjum vef Ríkisútvarpsins. Þetta gæti raunar ekki síður verið sjónvarpsefni þar sem okkur væri kennt að nota vefinn. Takið það til athugunar. Athugasemdir Stefáns Jóns Hafsteins, sem hringdi til þáttarins, voru réttmætar. Það á ekki að vera háð duttlungum dagskrárgerðarmanna hvernig efni er skráð á vefinn.

Í þættinum var rætt við háskólakonu, sem sagði frá högum afrískar konu. Sagt var að hún þyrfti að sjá um að dýrin (húsdýrin) fengju að borða. Þarna hefði nægt að tala um að gefa dýrunum eða fóðra dýrin. Ekki er málvenja að tala um að dýr borði. Hreint ekki.

Rétt fyrir auglýsingar á undan fréttum klukkan ellefu sagði þáttarstjórnandi að tilkynning hefði verið að berast. Maður hélt að stórfrétt væri í vændum. Nei. Tilkynningin var löng auglýsing um handverksmarkað á Akureyri. Þetta var ekki tilkynning, heldur hrein og ómenguð auglýsing. Skýr mörk eiga að vera milli dagskrárefnis og auglýsinga. Þarna var sú regla rækilega brotin. (Á 1:54:50) http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/sirry-a-sunnudagsmorgni/20150308

 

Dýrafóðrun, skylt. Í færeyska sjónvarpinu á sunnudagskvöld (08.03.2015) sá Molaskrifari brot úr þætti þar sem verið var að hluta sundur nautshaus. Gamli Færeyingurinn sem það gerði sagði ( með íslenskri stafsetningu): Það heitir ekki munnur á nauti. Það heitir kjaftur!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband