5.3.2015 | 10:19
Molar um málfar og miðla 1688
Edda sendi Molum eftirfarandi (02.03.2015): ,,Alltof oft sér maður á netinu eða í dagblöðum notkun nafnorðsins, hor í hvk.
Í barnaskóla var manni kennt að orðið hor (úr nefi) væri karlkyns, horinn, en núna virðist það vera komið í hvorugkyn, horið.
Hvað veldur?
Takk fyrir Molana, Edda.
Molaskrifari þakkar Eddu bréfið. Hefur tekið eftir þessu líka. Kann ekki skýringu, en grunar að þetta sé þó alls ekki nýtt fyrirbæri.
Fín eftirfylgni í Kastljósi gærkvöldsins (04.03.2015) á kukli og snákaolíusölum. Molaskrifari saknaði þó þess, að ekki skyldi fjallað nánar um ristilskolun, sem rétt aðeins var nefnd á nafn. Hundruð Íslendinga hafa fallið fyrir auglýsingum um ristilskolun. Læknar sem Molaskrifari hefur rætt við segja hana í besta falli skaðlausa, en í versta falli lífshættulega. Léttir ekkert nema pyngju þess sem kaupir meðferðina.
Viðmælandi fréttamanns í Spegli Ríkisútvarpsins (02.03.2015) notaði orðalagið: Vöxtur í fjölgun ferðamanna .... Það var og. Vöxtur í fjölgun!
Af mbl.is (03.03.2015): ,,Lögreglumenn höfðu sjónpóst á húsinu meðan beðið var eftir liðsafla sérsveitar ríkislögreglustjóra. Lögreglumenn höfðu sjónpóst á húsinu? Hvað þýðir það. Hvað er að hafa sjónpóst á? Þýðir það ekki, að lögreglumenn höfðu gætur á húsinu, fylgdust með mannaferðum við húsið?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/03/sersveitin_yfirbugadi_konuna/
Öllum sem líkar við Heimkaup.is geta unnið svona Acer-spjaldtölvu, segir í auglýsingu á fésbók. Ekki mjög traustvekjandi.
Nýr vefur Ríkisútvarpsins sá dagsins ljós í vikunni. Nokkurn tíma tekur að venjast nýju viðmóti á skjánum, en fljótt á litið virðist þarna hafa tekist heldur vel til. Molaskrifari á þó eftir að kynnast og vonandi venjast vefnum betur og læra að nýta hann.
Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi (04.03.2015) var talað um sextíu þúsund gleraugu. Hér hefði að mati Molaskrifara farið betur á því að tala um sextíu þúsund gleraugnapör
Úr íþróttafréttum á visir.is (01.03.2015): Bikarinn á Brúnna. Brúna á þetta sennilega að vera, en Molaskrifari játar að hann skilur ekki samhengið. Hann er heldur ekki innvígður og innmúraður í veröld fótboltans. http://www.visir.is/bikarinn-a-brunna---sjadu-morkin/article/2015150309960
Í fréttinni er talað um darraðadans. Á að vera darraðardans. Darraður er spjót.
Af vef Ríkissjónvarpsins (01.03.2015): ,, ... en Edin Dzeko jafnaði metinn fyrir City korteri seinna. Þetta hefði átt að vera jafnaði metin. ,,... en bæði liðin koma einmitt frá höfuðborginni, var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps sama kvöld. Liðin voru bæði frá höfuðborginni. Þau voru ekki að koma frá höfuðborginni. Algengt að heyra þetta orðalag.
Í Molum gærdagsins var talað um misyndisfólk. Það átti auðvitað að vera misindisfólk. Þakka vini Molanna ábendingu um villuna. Sjónminnið eitthvað laskað hjá skrifara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.