Molar um málfar og miðla 1654

 

Hversvegna þarf að riðla kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins á Íslandi þótt Brasilíumenn séu að spila handbolta við Qatar? Ég spyr. Þar var gert í gærkveldi og fréttum seinkað um 15 mínútur. Kastljósið skorið við trog. Svo bættist reyndar við enn meira boltafjas seinna um kvöldið. Sennilega hefur Molaskrifari ekki verið sá eini sem þá gafst upp á Ríkissjónvarpinu. Ekki verður séð að norrænu sjónvarpsstöðvarnar hafi sýnt þessum boltaleik minnsta áhuga. Og ekki sýnist áhuginn mikill í Qatar eftir áhorfendafjölda að dæma. - Hver ræður dagskrá Ríkissjónvarpsins? Ekki fréttastjórinn. Varla útvarpsstjórinn, en örugglega íþróttastjórinn. Þetta er dæmi um það, þegar stofnun, sem fólk ræður ekki hvort það vill eiga viðskipti við, misbeitir valdi sínu. Ríkissjónvarpinu, sem hefur menningar- og fræðsluhlutverki að gegna, hefur tekist að skapa einskonar múgsefjun í kringum boltaleiki. Í dagskrá ríkisrásarinnar hafa boltaleikir forgang umfram allt annað.

 

Lesandi sendi þessa ábendingu (15.01.2015): ,,Á næstu mánuðum mun Krónan opna þrjár nýjar verslanir þar sem nú eru Nóatúnsverslanir. Verslanirnar í Grafarholti, Hamraborg og Nóatúni munu breytast úr Nóatúni í Krónuna." - Þessi venjulega meinloka hér: Krónan opnar ekki nýjar verslanir, en þremur verslunum Nóatúns verður breytt í Krónubúðir. Verslanir fremur en önnur dauðleg fyrirbæri hafa ekki sjálfstæðan vilja til breytinga.” – Mikið rétt. Molaskrifari þakkar ábendinguna: http://www.visir.is/hverfin-gera-krofur-til-reksturs-lagverdsverslana/article/2015701159935

 

Það er hvimleiður siður sumra, stjórnmálamanna og annarra, sem rætt er við í útvarpi og sjónvarpi að ofnota orðið sjálf/sjálfur. Rætt var við félagsmálaráðherra í sjónvarpi í gærkvöldi. Hún sagði: Ég sjálf er þeirrar skoðunar... Hér hefði nægt að segja: Ég er þeirrar skoðunar.

 

Molaskrifari hlustaði stundarkorn á Virka morgna á Rás tvö (15.01.2015). Þar var allt óbreytt. Enn var verið að um hljóstir (hljómsveitir) og eitthvað sem var dáslett (dásamlegt). Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Málfar í þessum þætti er það ekki.

 

Ratbjart um miðjan dag, segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu (15.01.2015). Ratljóst er gamalt og fallegt orð. Samanber sauðljóst og vígljóst. Fleiri orð í sama dúr?

Þessu skylt eða tengt. Ljósbært veður.

Í bráðskemmtilegri bók Þórðar Tómassonar frá Vallnatúni, Þórðar í Skógum, Veðurfræði Eyfellings, vitnar hann í veðurlýsingu sér Markúsar Jónssonar í Holti frá miðri nítjándu öld:,,Er þá stundum svo lygnt á millum byljanna, að ljósbært er úti millum húsa, en í sjálfum byljunum hringlar og brakar í öllu".

 

Newcastle líklegast til að spreða í janúar, segir í óskiljanlegri fyrirsögn á dv. is (15.01.2015). Annaðhvort kann Molaskrifari ekki íslensku eða sá sem samdi þessa fyrirsagnarómynd er ekki vel að sér um skrif á íslensku. http://www.dv.is/sport/2015/1/13/newcastle-liklegast-til-ad-spreda-i-januar/

 

Fyrsti þátturinn í röðinni Ferð til fjár í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (15.01.2015) lofar heldur góðu. Skemmtilega fjölbreytt nálgun. Viðfangsefnið ekki einfalt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Newcastle líklegast til að spreða í janúar

Þetta þýðir augljóslega að N ætlar að festa kaup á janúar.

Ásgrímur Hartmannsson, 16.1.2015 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband