Molar um málfar og miðla 1643

  

K.Þ. skrifaði (28.12.2014): Hann segir: ,,Sæll Eiður,

Bestu hátíðarkveðjur frá gömlum félaga og kollega!

Ég bendi nú á enn eitt dæmið um sömu málvilluna hjá íslenskum blaðamönnum, ranga beygingu orðsins "tengdur":

"Hvarf þotu Air As­ia er enn eitt áfallið fyr­ir malasísk flug­fé­lög en um er að ræða þriðja óhappið tengdu malasísk­um flug­fé­lög­um síðan í mars."

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/12/28/699_manns_um_bord_i_velunum_thremur/

Ég man ekki til þess að hafa séð þetta notað rétt í fjölmiðlum á seinni árum!” - Molaskrifari þakkar Kristjáni bréfið og hlýja kveðju.. Það reynist mörgum erfitt að fara rétt með þetta.

 

Útúrdúr þeirra víkings Heiðars Ólafssonar og Höllu Oddnýjar Magnúsdóttur í Ríkisjónvarpi á sunnudagskvöld (28.12.2014) brást ekki frekar en fyrri daginn. Gott að eiga nýja þáttaröð í vændum. Þetta er úrvalsefni og vel til þess fallið að leiða fleiri inn í heim sígildrar tónlistar.

 

Úr frétt á visir.is (26.12.2014): ,,Svo var líka búið að brjóta gler í rúðu í forstofunni, segir Ásgerður”. Við tölum ekki um að brjóta gler í rúðu. Við tölum um að brjóta rúðu.

 

Þetta er úr frétt á mbl.is á aðfangadag. Eitthvað hefur verið slegið slöku við gæðaeftirlitið í jólaönnum:

Á meðan lands­menn kepp­ast við að keyra út pakka og und­ir­búa málsvörð kvölds­ins ..... Fjöl­skyld­an, sem sam­an­stend­ur af fimm fjöl­skyldumeðlim­um, ..., og tel­ur Natasha myrkrið á Íslandi spila þar stóra rullu. Þau höfðu rétt lokið sér af við mat­ar­borðið ... Þau eru ekki með elda­vél og seg­ir Natasha að Jay geti eldað nán­ast hvað sem er á pönnu. Hún seg­ir hlýtt og nota­legt í skút­unni, ar­in­eld­ur­inn í gangi .... Þá hef­ur sjó­maður úr höfn­inni boðið fjöl­skyld­unni með sér á jóla­boð norska hers­ins á eft­ir.. Jólaboð norska hersins í Reykjavík??? Það skyldi þó ekki vera átt við Hjálpræðisherinn?

Varla er það svona fréttaflutningur, sem átt er við í Bréfi frá útgefanda í Sunnudagsmogga (28.12.2014). Bréfið er einskonar kveðjubréf útgefanda til lesenda blaðsins , en þar segir: ,,Áskrifendur Morgunblaðsins og lesendur mbl.is ætlast til mikils af miðlum sínum. Þeir sætta sig ekki við annað en vandaðar, hlutlausar fréttir. Þær eiga að vera sanngjarnar, heiðarlegar, skemmtilegar , vel skrifaðar , líflegar og nýstárlegar”. Það var og. Rétt er það,  að margt gera  blaðamenn Morgunblaðsins vel. Molalesendur geta spreytt sig á því að finna hvað af þessum lýsingarorðum á við þessa frétt mbl.is frá aðfangadegi.  Hér er fréttin í heild. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/24/von_ad_halda_jolin_i_skutu/   Þetta er í aðra röndina svolítið broslegt.

Og hér er svo örstutt frétt af mbl.is (29.12.2014) sem hreint ekki stenst þær kröfur sem fram eru settar í kveðjubréfi útgefanda: ,,Slit hef­ur orðið á ljós­leiðara Mílu milli Borg­ar­ness og Ólafs­vík­ur. Slitið varð um kl. 13.20 og eru viðgerðamenn farn­ir af stað á svæðið til viðgerða.” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/29/slit_a_ljosleidara_milli_borgarness_og_olafsvikur/

Betra hefði verið: Ljósleiðari Mílu milli Borgarness og Ólafsvíkur er slitinn. Strengurinn slitnaði klukkan 13:20. Viðgerðarmenn eru lagðir af stað til að laga bilunina. -

Prýðilegt Kastljós á mánudagskvöldi (29.12.2014) með fróðleik um mikilvæga starfsemi björgunarsveitanna sem inna af höndum mikilvæg hjálparstörf í þágu lands og lýðs. Molaskrifari hefur alltaf átt bágt með að skilja hversvegna íþróttafélög, sem njóta hárra ríkisstyrkja m.a. í formi lögverndaðs einkaleyfis á Lottói og getraunum, þurfa að seilast inn á þennan fjáröflunarvettvang björgunarsveitanna.

Ekki var síður fróðlegt að fá að skyggnast inn fyrir klaustursveggi Karmelsystra í Hafnarfirði. Það var gert af smekkvísi og spyrill hélt sig hæversklega til hliðar .Það mætti oftar vera þannig. Kærar þakkir.

 Þetta eru síðustu Molar ársins 2014. Molaskrifari óskar lesendum og velunnurum Molanna gæfu og gengis á nýju ári og þakkar ánægjuleg samskipti á árinu, sem senn er á enda runnið.

Gleðilegt ár, þakka það liðna !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband