Bensín og brennivín

 Margt er skrítið í kýrhausnum. Hér  á landi  er til dæmis bannað að auglýsa  áfengi.Það er  reyndar ekkert  skrítið, heldur í góðu lagi.Samt freyðir bjórinn á skjánum í stofunni hjá mér á hverju kvöldi. Bæði á ríkisskjánum og  einkaskjánum. Hráefnið er vegsamað og  lofsorði lokið á  drykkinn. Aldrei er sagt að verið  sé að auglýsa  léttöl, en  athugulir áhorfendur með skarpa sjón geta greint  orðið léttöl sem birtist í  svo sem tvær  sekúndur með smáu letri neðst í hægra horni. Auðvitað er verið að auglýsa öl, ekkert síður  áfengt en óáfengt. Enginn bregst við. Umræða hefur verið um að Vinstri grænir þingmenn hafi komið í veg fyrir,að  Alþingi ræddi frumvarp til laga um að leyfa sölu léttvíns og bjórs í verslunum. Þeir hafi hótað málþófi. Ágreiningur er sagður um málið í  öllum flokkum, nema kannski Sjálfstæðisflokki. Í dag  fór ég  austur fyrir  Fjall. Tók bensín í Hveragerði. Hjá Essó. Nú eru það ekki bara framsóknarmenn, sem  taka bensín hjá Essó. Mér  brá svólítið í brún. Kannski er ég  búinn að vera of lengi í Kína. Fylgist allavega ekki  nógu vel með. Á bensínstöðinni var  ekki bara hægt að kaupa bensín ,  heldur líka brennivín og  borðvín af öllum sortum.  Þetta er  mikil þjónusta   við Hvergerðinga,nærsveitamenn  og  ferðafólk. Ekki  rekur mig  minni til þess  að Alþingi hafi sett lög  um að bensínstöðvar megi selja brennivín. Kannski var ég of lengi í Kína. Ef Essó í Hveragerði má  selja  brennivín, - af hverju þá ekki   Essó við Stóragerði? Ég  skil þetta ekki alveg, - eða  eins  og  nú er í tísku að segja – ég er bara alls ekki að skilja þetta,eða þannig. Essó í Hveragerði gæti nú  sem  best auglýst: “Bætt’ á bílinn, bætt’ á þig  bokku.”  Það væri ekkert verið að auglýsa áfengi ,-  eða  hvað?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband