11.11.2014 | 08:52
Molar um málfar og miðla 1611
Það er ástæðulaust að vera með sérstakan fimmtán mínútna íþróttaþátt milli almennra frétta og veðurfrétta eins og gert var í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld (08.11.2014). Veðurfregnir eiga að koma strax í kjölfar almennra frétta. Er þetta ekki bara enn eitt dæmi um yfirgang íþróttadeildarinnar í Efstaleiti? Spurt hefur verið hvort þetta sé gert til að auka áhorf á íþróttafréttir meðan veðurfregna er beðið.
Fréttayfirlit Ríkisútvarpsins í hádegi á laugardag (08.11.2014) hófst á þessum orðum: Formanni Starfsmannafélags Kópavogs segir mikið bera í milli (verið var að segja frá kjaradeilu félagsins og Kópavogsbæjar). Þetta átti að vera: Formaður Starfsmannafélags Kópavogs segir ..... ekki formanni. Seinna í sömu setningu var talað um fullt af öðrum starfsmönnum.
Enskuslettan tax-free dynur á okkur daginn út og daginn inn. Þetta er marg endurtekið í útvarpsauglýsingum og blasir við í fjölmörgum blaðaauglýsingum. Í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins stóð og stendur víst enn:,, Auglýsingar skulu vera á lýtalausu íslensku máli. Auglýsingadeildin telur slettuna tax-free vera lýtalaust íslenskt mál, - eða hvað? Upphaflega var tax-free, duty free, notað um flugvallarverslanir í útlöndum sem seldu tollfrjálst áfengi, tóbak og ilmvötn, en seinna allt milli himins og jarðar. Einhverjum auglýsingabrallara datt svo í hug að nota þessa slettu um afslátt, sem verslanir ákveða að veita. Í sunnudagsmogga (09.11.2014) eru Taxfree sófar auglýstir í heilli opnu. Það sleppur enginn við að borga skatt. Hvorki verslunin né viðskiptavinurinn. Veittur er afsláttur sem er 20,32%. Það er verið að blekkja okkur með því að virðisaukaskatti sé sleppt. Er hann ekki 25,5%?
Það var heldur vond sviðsetning og hálfkjánaleg vinnubrögð í fréttum Ríkissjónvarps fyrir helgina , þegar fréttamaður stillti sér upp með leikskólabarn í fanginu fyrir framan myndavélina. Það fór ekki framhjá neinum að barninu leið ekkert sérstaklega vel.
Af forsíðu visir.ir (08.11.2014): Árlegur fundur ríkja við Eystrasalt lauk í lettnesku höfuðborginni Ríga í dag. Fundur lauk ekki. Fundi lauk.
Hraðfréttir Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (07.11.2014) voru lélegar og ófyndnar. Staðfestu það sem við höfum flest áður upplifað. Sjónvarpsfólk hefur mestan áhuga á öðru sjónvarpsfólki. Þetta er sóun á dýrmætu dagskrárfé, sem nota mætti til góðra verka.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Athugasemdir
Ég er hjartanlega sammála því, sem þú hefur skrifað bæði í þessum pistli og öðrum pistlum, ekki síst um málfarið, sem mér blöskrar alveg. Það er líka gaman að velta fyrir sér tungumálinu. Áðan var fjármálaráðherra að segja í ræðu á Alþingi, að hann ætlaði að leggja fram frumvarp, sem þyrfti að "afgreiðast" á þessu ári. Bíddu við, sagði ég, er hægt að segja svona? Að hlusta líka á suma ungu þingmennina tala, sérstaklega píratana. Ræðurnar eru í bland á ensku og íslensku, svo að forseti þingsins þarf oft að minna menn á, að í þessarri stofnun sé íslenska aðalmálið og ætlast til þess, að fólk tali eingöngu það mál. Þetta minnir mig líka á það, sem sr. Jónas Gíslason, vígslubiskup sagði við okkur nemendur sína einu sinni, en þá hafði hann ferðast í strætó, þar sem bíllinn var bilaður. Fyrir framan hann höfðu unglingsstrákar setið, "sem töluðu alveg óskiljanlegt mál", sagði Jónas. Hann spáði því þá, að þegar við værum komin í hans sæti, kennarasætið, og þetta unga fólk sæti í okkar sætum, þá væri spurning, hvort nemendur og kennarar myndu skilja hvort annað. Mér dettur þetta oft í hug, þegar ég heyri, hvernig unga fólkið talar í dag. Það er líka rétt hjá þér, að jafnvel þar sem fólk frá Norðurlöndum er annars vegar, þá er oftar en ekki talað við það á ensku frekar en á þeirra eigin máli. Sérstaklega hef ég tekið eftir þessu á Stöð2, síður í Ríkisútvarpinu. Þessar breytingar á dagskrá útvarps og sjónvarps finnst mér líka alveg óþarfar og heldur til vansa en hitt.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 11.11.2014 kl. 17:36
Kærar þakkir, Guðbnjörg Snót.
Eiður Svanberg Guðnason, 11.11.2014 kl. 17:54
Kærar þakkir,Guðbjörg Snót.
Eiður Svanberg Guðnason, 11.11.2014 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.