29.10.2014 | 08:35
Molar um málfar og miðla 1603
Hér hefur ef til vill eitthvað skolast til. Á netinu má sjá að eitt kíló af gulli kostar um 4,7 milljónir íslenskra króna. Varla getur valhnetukílóið verið svo dýrt, - eða hvað?
Gott var að heyra málfarsráðunaut og umsjónarmenn Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (28.10.2014) fjalla um enskuslettuna tax-free sem dynur á okkur í auglýsingum í öllum fjölmiðlum, - næstum hvern einasta dag. Í þessum Molum hefur verið amast við þessari slettu árum saman. Ekki minnist Molaskrifari þess að hafa fengið undirtektir við þau skrif í Ríkisútvarpinu fyrr en nú. Betra er seint en aldrei. Hvað er til ráða? Tvennt er til ráða. Ríkisútvarpið á að neita að taka við auglýsingum þar sem þessi enskusletta er notuð. Eiga ekki auglýsingar að vera á vönduðu íslensku máli? Sáraeinfalt og auðvelt. Svo eiga auglýsingastofur að taka höndum saman og hætta að nota slettuna í auglýsingum, sem þær hanna eða semja. Þetta er alls ekki flókið.
...þar sem venja er fyrir því að baka vöfflur, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps (27.10.2014). Hér hefði nægt að segja: ... þar sem venja er að baka vöfflur. Ekki er venja að segja að venja sé fyrir einhverju ! Hinsvegar er stundum sagt að hefð sé fyrir einhverju.
Það var ágætlega orðað í fréttum Ríkissjónvarps (27.10.2014) þegar talað var um að lenda milli skips og bryggju í kerfinu, tilvik þar sem ekkert var hægt að gera vegna þess að engar reglur voru til um það mál sem um var að ræða. Það var hinsvegar ekki eins vel orðað að mari Molaskrifara, þegar talað var um að Læknavaktin hefði opnað klukkan fimm. Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (28.10.2014) var sagt frá snjóflóði, sem féll á veginn í Ólafsfjarðarmúla. Vegfarendur voru beðnir að aka varlega og stöðva ekki að óþörfu. Molaskrifari hefði sagt , - stansa ekki að óþörfu. Nema ekki staðar að óþörfu.
Framför. Seinni fréttum Ríkissjónvarps seinkaði um fjórar mínútur á mánudagskvöld (27.10.2014). Seinkunin var tilkynnt á skjáborða og fréttaþulur baðst afsökunar í upphafi fréttatímans. Þannig á þetta einmitt að vera, ef dagskrá fer úr skorðum.
Trúlofaðist kærastanum, sagði í fyrirsögn á mbl.is (28.10.2014). Það var og! http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/10/28/trulofadist_kaerastanum/
Málvöndun er ekki beinlínis í hávegum höfð í Virkum morgnum, morgunþætti Rásar tvö. Aðfaranótt miðvikudags (29.10.2014) var flutt endurtekið efni úr þeim þætti. Þar var einhverskonar sölumennska í gangi. Þá sagði umsjónarmaður: Þessum einstaklingi vantar .... Það var og.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.